Kærleikur Pollýönnu aldrei átt betur við

Mynd: Aðsend / Einar B. Gröndal

Kærleikur Pollýönnu aldrei átt betur við

21.07.2021 - 11:25

Höfundar

„Þú ert svo mikil Pollýanna,“ kannast líklega flestir við að hafa heyrt sagt við einhvern sem er mjög jákvæður. Einar Benedikt Gröndal segir það þó ekki vera neikvætt heldur hafi allir gott af að sjá hið jákvæða í lífinu. Þeir Einar Benedikt og Márton Wirth semja nú söngleik um stúlkuna glaðlyndu.

Sjaldan hefur verið jafn mikil þörf fyrir jákvæðni og gleði og nú. Félagarnir Einar Benedikt Gröndal og Márton Wirth standa fyrir uppsetningu á söngleik byggðum á sívinsælli skáldsögu Eleanor H. Porter um Pollýönnu. Glaðlegt og jákvætt viðhorf hennar til lífsins er bráðsmitandi og nokkuð sem þjóðfélagið þarf á að halda.  

Einar fer með textasmíð og Márton semur tónlistina.  

Jákvæður og uppbyggilegur söngleikur 

Einar segir að hugmyndin að söngleiknum sé komin frá Mártoni sem er organisti í Landakotskirkju og kórstjóri. Hann hafi minnst á það einn daginn, þegar Einar var í söngtíma hjá honum, að hann langaði að gera söngleik sem væri jákvæður, uppbyggilegur og hefði skemmtilegan þráð og skilaboð. „Ég sagði honum að þetta væri snilldarhugmynd. Hann tilkynnti mér svo í næsta söngtíma að ég væri að fara að skrifa textann.“  

Áður en Einar vissi af hafði hann samþykkt að taka verkefnið að sér þótt hann hafi aldrei gert neitt þessu líkt áður. Bakgrunnur hans sé í náttúrulækningum og austrænum fræðum. „Ég hef svo sem dundað mér við að skrifa vísur en ekkert í líkingu við þetta,“ segir Einar. Forfeðurnir væru allir skáld og Einari fannst eins og hann hefði ekkert að segja miðað við þá.  

„Svo byrjaði hann að spila lagahugmyndir fyrir mig. Það var svo skemmtilegt hvernig hann hugsaði þetta og útfærði,“ segir Einar um Márton Wirth, sem er tónskáld, hljómsveitarstjóri og kórstjóri til margra ára og hefur samið fjölda söngleikja og kórverka. „Úr varð mjög skemmtilegt verkefni, og því meira sem við hugsuðum um það og fórum að leika okkur með það, því meira fundum við hvað þetta talar mikið til þjóðfélagsins.“ Ákveðin sundrung eigi sér stað í verkinu, líkt og í samfélaginu á tímum heimsfaraldurs, en á sama tíma er fjölskyldan að koma aftur saman vegna þess að fólk hefur þurft að vera meira heima fyrir.  

„Það er svo skrítið að þetta snarvirkar“ 

Saga Pollýönnu er af ungri stúlku sem elst upp í örbirgð með pabba sínum en er komið fyrir hjá ríkri frænku sinni þegar hann deyr. Þar er samfélagið í lamasessi en með jákvæðu viðmóti tekst henni að hjálpa fólkinu í kringum sig. Áður en faðirinn féll frá kenndi hann nefnilega dóttur sinni leik sem snýst um að sjá hið jákvæða við allar aðstæður. „Ég fór að leika þennan leik sjálfur þegar ég var að lesa bókina, og það er svo skrítið að þetta snarvirkar,“ segir Einar. Líði manni ekki vel eða sé í erfiðu skapi og geri sér það að finna einhverja jákvæða hlið, eins fáránlegt og það megi virðast, fer maður úr þessum daglega hugarheimi sem maður er í. „Þegar maður finnur þessa jákvæðu hlið á vandamálinu fer maður einhvern veginn frá huganum og ofan í hjartað.“  

„Þessi hjartavitund einkennist, að mér finnst, af þakklæti og kærleika,“ segir Einar. Það sé ævaforn hugmynd í austrænum fræðum að vandamálin eru búin til í huganum. „Þetta er svo fáránlega einfalt.“  

Oft sé fólk kallað Pollýanna í kaldhæðni ef það þykir of jákvætt eða barnalagt. „Ef maður lítur á hugann í sér og vitleysuna sem fer þar í gegn, hvernig hann er yfir daginn og allt sem fer í gegnum hann. Þá er ekkert fáránlegt að reyna að finna hið á málinu frekar en annað sem maður hugsar um.“ 

„Þetta er orðið svo skemmtilegt“ 

„Við erum að vinna þetta sem tilraunaverkefni,“ segir Einar. Márton semur tónlistina fyrst og Einar býr til textann í kringum lagið. Síðar ákveða þeir hvernig verkið verður flutt á sviði. Einar semur bæði lagatextana og talaða hluta söngleikjarins. „Ég geri eitt, eins gott að gera bæði,“ segir hann og mætti því kalla hann leikskáld í leiðinni. „Það er svo skrítið, einhvern veginn þegar ég settist niður eftir að hafa leikið þennan leik, þá bara kom þetta.“  

Þeir félagar bjóða upp á fjölbreytta tónlist á borð við klassíska, glaðlegt ragtime, djass og fallegar melódíur frá 1920. Einar segir að það sé ögrun að láta textann passa við tónlistina en þeir séu komnir vel af stað. „Þetta er orðið svo skemmtilegt að manni hlakkar bara til að halda áfram.“ 

Verkefnið er alfarið fjármagnað á Karolina Fund og búast þeir við að verkið verði tilbúið næsta vor. „Fólk getur gefið ákveðna upphæð og fær þá aðgang að efninu jafnóðum og það er skrifað.“ Tónlistina taka þeir upp á kaffistofunni með píanói og setji svo allt á netið svo fólk geti fylgst með. „Það sem kom mér á óvart er hvað tónlistin snertir mann, vekur eitthvað upp í manni.“ 

Rætt var við Einar Benedikt Gröndal í Sumarmálum á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.  

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Hollt að kunna að vera leikhússgestur heima hjá sér

Pistlar

Freknóttar stelpur brosa framan í fordómana