Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

ESB neitar að semja að nýju um Norður-Írland 

21.07.2021 - 15:48
epa09123327 A General view of Nationalist youths clashing with Police on the Springfield Road in west Belfast, in Northern Ireland, Britain, 08 April 2021. Protests have been taking place across Northern Ireland by loyalists in the past week.  EPA-EFE/Mark Marlow
 Mynd: EPA
Yfirvöld í Bretlandi kröfðust þess í dag að Evrópusambandið myndi semja upp á nýtt um verslun og viðskipti fyrir Norður-Írland í kjölfar Brexit. Óeirðir og ólæti í verslunum hafa ítrekað brotist þar út enda óánægja mikil. ESB hafnaði kröfunum samstundis.

Evrópusambandið hefur staðið fast á því að það sé stjórnvalda í Lundúnum að innleiða þau ákvæði sem samþykkt voru í Brexit-skilnaðinum. Bresk stjórnvöld slepptu því hins vegar að fresta svokallaðri Norður-Írlandsbókun, sem krefst eftirlits með vörum sem fara yfir frá meginlandi Bretlands. 

Brandon Lewis, ráðherra málefna Norður-Írlands, sagði á þinginu að á meðan Bretar hefðu samið um umrædda bókun „í góðri trú“ hefði framkvæmdin af hálfu ESB falið í sér „töluverðar og viðvarandi byrðar“ fyrir Norður-Írland. 

„Við svo búið verður einfaldlega ekki unað,“ sagði hann um eftirlitið og meðfylgjandi skriffinnsku. 

Hann hvetur ESB til að líta á málið að nýju og vinna með Norður-Írlandi að því að nýta tækifærið og koma samskiptum þeirra á milli á betri veg. 

Norður-Írlandsbókunin var vandlega orðuð til að komast hjá því að komast upp á kant við Írland með því að halda Norður-Írlandi í raun innan sameiginlegs markaðar ESB. 

Engu að síður hefur óánægjan með bókunina ítrekað brotist út með ofbeldi það sem af er þessu ári. Margir sambandssinnar, sem eru hlynntir Stóra-Bretlandi, líta á hana sem orsakavald þess að landamæri hafa í raun myndast á Írlandshafi við meginland Bretlands og telja sig svikna fyrir bragðið. 

ESB lætur sér aftur á móti fátt um finnast. „Við erum reiðubúin að halda áfram að leita að skapandi lausnum, innan ramma bókunarinnar, í þágu allra íbúa á Norður-Írlandi,“ sagði Maros Sefcovic, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. „Við munum hins vegar ekki samþykkja að semja að nýju um bókunina,“ sagði hann ennfremur.