
ESB neitar að semja að nýju um Norður-Írland
Evrópusambandið hefur staðið fast á því að það sé stjórnvalda í Lundúnum að innleiða þau ákvæði sem samþykkt voru í Brexit-skilnaðinum. Bresk stjórnvöld slepptu því hins vegar að fresta svokallaðri Norður-Írlandsbókun, sem krefst eftirlits með vörum sem fara yfir frá meginlandi Bretlands.
Brandon Lewis, ráðherra málefna Norður-Írlands, sagði á þinginu að á meðan Bretar hefðu samið um umrædda bókun „í góðri trú“ hefði framkvæmdin af hálfu ESB falið í sér „töluverðar og viðvarandi byrðar“ fyrir Norður-Írland.
„Við svo búið verður einfaldlega ekki unað,“ sagði hann um eftirlitið og meðfylgjandi skriffinnsku.
Hann hvetur ESB til að líta á málið að nýju og vinna með Norður-Írlandi að því að nýta tækifærið og koma samskiptum þeirra á milli á betri veg.
Norður-Írlandsbókunin var vandlega orðuð til að komast hjá því að komast upp á kant við Írland með því að halda Norður-Írlandi í raun innan sameiginlegs markaðar ESB.
Engu að síður hefur óánægjan með bókunina ítrekað brotist út með ofbeldi það sem af er þessu ári. Margir sambandssinnar, sem eru hlynntir Stóra-Bretlandi, líta á hana sem orsakavald þess að landamæri hafa í raun myndast á Írlandshafi við meginland Bretlands og telja sig svikna fyrir bragðið.
ESB lætur sér aftur á móti fátt um finnast. „Við erum reiðubúin að halda áfram að leita að skapandi lausnum, innan ramma bókunarinnar, í þágu allra íbúa á Norður-Írlandi,“ sagði Maros Sefcovic, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. „Við munum hins vegar ekki samþykkja að semja að nýju um bókunina,“ sagði hann ennfremur.