Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aukið álag í sýnatöku og erfitt að ráða starfsfólk

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Álag á starfsfólk sem sinnir COVID-sýnatöku hefur aukist töluvert síðustu daga og helst þyrfti að fjölga í hópnum. Verkefnastjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins býst við mikilli aðsókn í dag. 

 

Ekki bara einkennasýni

Í gær voru tekin um 3000 sýni og hafa þau ekki verið fleiri í nokkra mánuði, Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins býst við álíka fjölda í dag. 

Við Suðurlandsbraut í Reykjavík eru bæði tekin sýni úr þeim sem eru með einkenni og ferðalöngum sem þurfa vottorð um smitleysi, ýmist PCR-próf eða svokölluð hraðpróf. „Hér hefur verið, síðastliðna daga, ansi þétt setinn bekkurinn en það gengur samt ágætlega,“ segir Ingibjörg.

Það eru aðallega Íslendingar og íbúar hér sem koma í einkennasýnatöku og sjaldgæft að ferðamenn óski eftir því. 

Erfitt að fá fólk til starfa

Ingibjörg segir álagið hafa aukist hægt og bítandi undanfarnar vikur, á Keflavíkurflugvelli, Suðurlandsbraut og líkast til um land allt, fyrst vegna fjölgunar ferðamanna en nú síðustu daga vegna aukins fjölda innanlandssmita. Helst þyrfti að ráða fleira fólk til að munda sýnatökupinnana. „Við erum að reyna það en það er ekki mikið af lausu starfsfólki, það hefur ekki gengið neitt gríðarlega vel að fá fólk til starfa en við erum samt bara í ágætis málum, þannig lagað.“

Margir fari að tilmælum Þórólfs

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur hvatt landsmenn sem koma að utan til að fara í sýnatöku eftir heimkomu, Ingibjörg segir þónokkuð um að fólk geri það og að raunar hafi farið að bera á því áður en sóttvarnalæknir hafði orð á því. „Áður en þessi tilmæli komu var fólk farið að spyrja og biðja um að komast í sýnatöku, bara svona til öryggis, þannig að við vorum farin að finna fyrir því rétt áður, en nú er farið að taka þessi sýni á Keflavíkurflugvelli líka ef fólk vill þannig að það er ekkert gríðarlegt álag út af því í sjálfu sér.“ 

Þrátt fyrir að álagið á Suðurlandsbraut hafi aukist hvetur hún fólk til að mæta. „Þó að fólk þurfi kannski að bíða í einhverri röð þá gengur þetta yfirleitt bara þónokkuð hratt.“