Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þjóðverjar leita til ESB um aðstoð

20.07.2021 - 17:36
Erlent · Hamfarir · Flóð · Þýskaland · Evrópa
epa09354898 German Chancellor Angela Merkel (C) and Prime Minister of North Rhine-Westphalia Armin Laschet (L) inspect the damage after heavy flooding of the river Erft caused severe destruction in the village of Bad Muenstereifel, Euskirchen district, Germany, 20 July 2021. Large parts of western Germany and central Europe were hit by flash floods in the night of 14 to 15 July, following days of continuous rain that destroyed buildings and swept away cars. The total number of victims in the flood disaster in western Germany rises to at least 164, with many hundreds still missing.  EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL / POOL
Angela Merkel kannar verksummerki eftir flóðin í vesturhluta Þýskalands. Mynd: EPA-EFE - EPA
Flóðin í vesturhluta Evrópu kostuðu að minnsta kosti tvö hundruð manns lífið. Tuga er enn saknað. Þjóðverjar ætla að óska eftir fjárhagsaðstoð úr sameiginlegum sjóðum Evrópusambandsins til uppbyggingar á flóðasvæðunum.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, kannaði aðstæður í dag á flóðasvæðum í sambandsríkinu Nordrhein-Westfalen. Hún sagði að hamfarirnar sem dunið hefðu á landshlutanum í síðustu viku væru þær verstu í sjö hundruð ár.

Merkel lofaði að fé til neyðaraðstoðar yrði afgreitt með skjótum hætti á þinginu í Berlín, bæði til aðstoðar íbúunum sem ættu ekkert nema fötin sem þeir klæddust og sömuleiðis til uppbyggingar á ýmsum lífæðum samfélagsins, svo sem vatnslögnum, rafmagns- og símalínum og símamöstrum, vegum, brúm og járnbrautum. Sambandsstjórnin ætlar að reiða fram 200 milljónir evra og sambandsríkin sextán annað eins.

Að sögn Reuters fréttastofunnar hyggjast stjórnvöld í Berlín óska eftir fé úr sameiginlegum sjóðum Evrópusambandsins til uppbyggingar. Í uppkasti sem senda á framkvæmdastjórninni segir að vatnsflaumurinn hafi farið um þorp og bæi og skolað burt húsum og brúm. Verulegur kostnaður fylgi því að koma innviðum í lag á næstu árum. 

Almannavarnir í Þýskalandi greindu frá því í dag að 169 lík hefðu fundist eftir flóðin. Annars eins fjölda er saknað. Að meðtöldum þeim sem létust í Belgíu er fjöldi látinna kominn í tvö hundruð. Í Belgíu er þjóðarsorg í dag til minningar um þá sem létust.