Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Straumur hælisleitenda yfir Ermarsund

20.07.2021 - 12:03
A police officer looks over a group of people thought to be migrants, sitting in the shade after being escorted from the beach by Border Force officers in Dungeness, southern England, Tuesday July 20, 2021.  A group or people are being looked after by officials following a small boat incident in the English Channel.  (Gareth Fuller/PA via AP)
Lögreglumaður gætir hóps hælisleitenda sem nýkoinn er yfir Ermarsund. Mynd: AP - PA
Á fimmta hundrað hælisleitendum tókst í gær að komast á gúmmíbátum yfir Ermarsund frá Frakklandi til Bretlands. Breska þingið áformar lagabreytingar í von um að stöðva flóttamannastrauminn.

Að sögn PA-fréttastofunnar komust að minnsta kosti 430 yfir sundið í gær, þar á meðal konur og börn, nokkur undir eins árs aldri. Á loftmyndum má sjá þétt setna gúmmíbáta sem siglt var frá Frakklandi að suðurströnd Englands.

Þetta er metfjöldi á einum degi. Fyrra metið var 416 í september í fyrra. Bretar hafa greitt Frökkum háar upphæðir fyrir að efla eftirlit sín megin til að stöðva flóttamannastrauminn. Fréttaritari Sky sjónvarpsstöðvarinnar sem fylgst hefur með málinu segir að það líkist einna helst leik músarinnar að kettunum. Fólki takist æði oft að sleppa undan eftirlitinu og sífellt sé verið að breyta áfangastöðum Englandsmegin.

Það sem af er júlímánuði hefur að minnsta kosti 1.850 hælisleitendum tekist að komast til Bretlands. Það eru fleiri en allt árið í fyrra.

Breska þingið ræðir um þessar mundir lagabreytingar til að stöðva flóttamannastrauminn. Theresa May, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur varað við hugmyndum að hætti Ástrala, um að flytja fólkið í búðir fjarri meginlandinu meðan verið er að kanna uppruna þess og ferðir.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV