Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hátíðahöld í skugga hörmunga

20.07.2021 - 19:52
Mynd: ASSOCIATED PRESS / AP
Eid al-Adha, ein af stærstu trúarhátíðum Múslima, er gengin í garð. Gleðin er þó ekki ráðandi alls staðar því íbúar Gaza takast enn á við afleiðingar loftárásanna í maí.

Eid al-Adha eða hátíð fórnarinnar er haldin hátíðleg um tveimur mánuðum eftir Eid al-Fitr sem markar lok Ramadan. Á hátíðinni er til siðs að slátra skepnu og minnast þannig fórnar Abrahams, sem Guð krafði um að fórna syni sínum sem tákni um hlýðni. Skepnunni sem er fórnað er svo skipt í þrjá hluta. Fjölskyldan fær einn, vinir og vandamenn annan og þann þriðja fá þau sem minna mega sín. „Það sem ég kann best að meta er að heimsækja ættingja og vini, vera með þeim og spjalla,“ segir Ema Karović sem býr í Ustikolina í Bosníu.

Í Afganistan fer hátíðin fram í skugga átaka Talíbana og afganskra stjórnvalda. Það var samt margt um manninn á markaði einum í höfuðborginni Kabúl. „Við erum reiðubúin að fagna Eid en vegna bardaganna, COVID-takmarkana og fátæktar, hefur gengur lítið að selja,“ segir Fawad, kaupmaður í Kabúl.

Þúsundir heimila á Gaza í rúst

Gleðin er ekki heldur allt umlykjandi á Gaza þar sem íbúar glíma enn við afleiðingar nánast linnulausra loftárása Ísraelshers í maí. Yfir 4.000 heimili eru annað hvort rústir einar eða verulega skemmd. „Hvert sem litið er eru ónýt hús. Ef þú sérð ekki eyðileggingu sérðu píslarvott, slasaða manneskju sem fór til útlanda í aðhlynningu og bíður fregna af afdrifum hennar. Hvernig fagna ég Eid ef tilhlökkunarefnin eru engin?“ Spyr Esraa Nassir, sem býr á Gaza.

Young girls play in front of a destroyed house as they celebrate the first day of Eid al-Adha holiday in town of Beit Hanoun, northern Gaza Strip, Tuesday, July. 20, 2021. Eid al-Adha, or the festival of sacrifice, is celebrated by Muslims around the world to commemorate Prophet Ibrahim's test of faith. (AP Photo/Khalil Hamra)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Stúlkur bregða á leik í Beit Hanoun á Gaza.
olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV