Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Telja vörn bóluefna minni en ætlað var

epa09324436 A minor receives a COVID-19 vaccine at a vaccination station in Tel Aviv, Israel, 05 July 2021. Israel starts a vaccination campaign to vaccinate minors between 12 to 18 years old.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Heilbrigðisyfirvöld í Ísrael vara við að vörn bóluefna gegn delta-afbrigði kórónuveirunnar sé minni en talið var. Smitum fer fjölgandi í landinu þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar sé bólusettur.

Heilbrigðisráðuneytið í Ísrael tilkynnti í síðustu viku að bóluefnin veittu 64 prósenta vörn gegn því að smitast af delta-afbrigðinu og 93 prósenta vörn gegn því að veikjast alvarlega. Ný gögn frá Gertner-stofnuninni í Tel Aviv sem birt voru í gær sýna að vörn gegn veirunni hefur að líkindum verið ofmetin. Að sögn dagblaðsins Ha'aretz er von á nánari upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu þegar mat hefur verið lagt á nýjustu upplýsingar stofnunarinnar.  

Stjórnvöld í Ísrael hafa áhyggjur af fjölgun kórónuveirusmita þessa dagana. Þau voru 1.118 á föstudaginn var. Naftali Bennett forsætisráðherra sagði af því tilefni að bóluefnin virtust virka verr en búist hefði verið við, einkum gegn delta-afbrigðinu. Hann boðaði til fundar með yfirvöldum heilbrigðismála til að ræða næstu skref til að stöðva útbreiðsluna.

58 prósent Ísraelsmanna eru fullbólusett og 63 prósent hafa fengið annan skammtinn. Þrýst er á óbólusetta landsmenn að láta bólusetja sig sem fyrst, einkum ungt fólk. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV