Everton staðfestir lögreglurannsókn á leikmanni

Mynd með færslu
 Mynd: Everton

Everton staðfestir lögreglurannsókn á leikmanni

19.07.2021 - 23:34
Fyrr í kvöld bárust fréttir af því að leikmaður í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hafi verið handtekinn fyrir helgi grunaður um kynferðisafbrot gegn barni. Nú rétt í þessu kom yfirlýsing frá Everton vegna málsins.

Everton verst allra frétta og kemur ekki til með að tjá sig meira um málið að svo stöddu en félagið segir á heimasíðu sinni að lögreglan sé að rannsaka leikmann félagsins. Leikmaðurinn hefur verið leystur frá störfum meðan rannsókn stendur. 

Einstaklingurinn sem um ræðir var handtekinn af lögreglunni í Manchester síðastliðinn föstudag en var sleppt stuttu síðar gegn tryggingu.

Leikmaðurinn er 31 árs gamall og giftur, talsmaður Everton staðfesti fyrr í kvöld að rannsókn væri í gangi og leikmaðurinn verið tímabundið leystur frá störfum. Þetta kemur fram á vef Daily Mail. 

Fleiri miðlar fjalla um málið og hjá Mirror kemur fram að leikmaðurinn er reyndur landsliðsmaður í heimalandinu og sé reglulega í byrjunarliði síns liðs, ekki er tekið fram hvaða félag um ræðir. Húsleit var framkvæmd hjá leikmanninum og voru nokkrir hlutir gerðir upptækir.

Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er samningsbundinn félaginu til ársins 2022.