Ástandið afar hættulegt
Talsmaður Alþjóða Rauða krossins og rauða hálfmánans segir að ástandið sé afar hættulegt, aðgengi að sjúkrahúsum og heilsugæslu sé takmarkað. Biðraðir eru við sjúkrahús sem geta ekki sinnt nema broti af þeim sem eru sýktir af kórónuveirunni. Skortur er á lyfjum og súrefni. Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að ástandið hafi breyst úr pólitískri krísu í mannlegar hamfarir.
Herforingjastjórnin herðir tökin
Herforingjastjórnin lætur sér þjáningar almennings í léttu rúmi liggja heldur herðir tökin á landinu. Sumir í hópi stjórnarandstæðinga virðast telja að friðsamlegar aðgerðir eins og verkföll og mótmæli skili engum árangri. Þeir segja að viðbrögð alþjóðasamfélagsins við valdaráninu aumkunarverð. Bandaríkin og Evrópusambandið hafa gripið til refsiaðgerða en Kínverjar og Rússar hafa komið í veg fyrir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna geti samþykkt eitt eða neitt um valdaránið og framferði herforingjastjórnarinnar.
Stjórnarandstæðingar grípa til vopna
Róttækir stjórnarandstæðingar segja því að tími sé kominn til að grípa til vopna gegn herforingjastjórninni. Þegar hafa borist fréttir af árásum á her og lögreglu víða um landið en fréttaskýrendur segja vopnaða baráttu gegn herforingjunum nánast vonlausa.
Hætta á að helmingar þjóðarinnar búi við fátækt
Sameinuðu þjóðirnar áætla að samdráttur þjóðarframleiðslu í Mjanmar verði að minnsta kosti tíu prósent á þessu ári. Hagur almennings versnar hratt og Michelle Bachelet segir að sex milljónir Mjanmar-búa þurfi mataraðstoð. Hún segir að Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Bachelet sagði einnig að Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna teldi að helmingur þjóðarinnar verði undir fátækrarmörkum í byrjun næsta árs. Það eru meir en 25 milljónir manns.