Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Uppstillinganefndin einróma um listann sem var felldur

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Framboðslisti uppstillinganefndar í Reykjavíkurkjördæmi suður, sem felldur var á kjördæmafélagsfundi Miðflokksins á fimmtudaginn, var einróma samþykktur í nefndinni. Þetta segir Guðlaugur G. Sverrisson, formaður uppstillinganefndar.

Uppstillinganefndinn ákvað að gera nokkrar breytingar frá fyrri lista. Sú helsta var sú að Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður og núverandi oddviti var ekki á honum en í efsta sæti var Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins. 

Framhaldið óákveðið

Guðlaugur segir að uppstillinganefndin hefði lokið störfum með því að leggja fram listann. Nú væri það stjórnar kjördæmafélagsins að ákveða framhaldið. Kostirnir eru þrír; að stilla upp öðrum lista, kjósa um efstu sætin á félagsfundi eða efna til prófkjörs. Anna Björg Hjartardóttir formaður stjórnar kjördæmafélags Reykjavíkurkjördæmis suður vildi ekkert segja um málið þegar Fréttastofa náði sambandi við hana fös. 16. júlí annað en að látið yrði vita þegar niðurstaða væri ljós. 

Fjóla Hrund Björnsdóttir sem var efst á listanum, sem felldur var á kjördæmafélagsfundinum segir niðurstöðu fundarins hafa komið virkilega á óvart og að núverandi oddviti, Þorsteinn Sæmundsson, hafi lagt til að listinn yrði felldur.

Þorsteinn þakklátur stuðningsmönnum á fundinum

Þorsteinn vill ekki tjá sig um hvort nefndin hafi hafnað honum: 

„Ég ætla ekkert að kommentera á það sko. Þetta sem gerðist í gærkvöldi [fyrrakvöld], sérðu, beinist ekki gegn einum eða neinum og allra síst þeim sem var settur í fyrsta sætið á þennan lista, sko. Það var ekkert þannig í gangi því að Fjóla Hrund er alveg verulega frambærileg og flott, vel gerð ung kona. Þetta beindist ekkert gegn henni og ekki gegn neinum öðrum. En eins og ég segi flokkurinn er lýðræðisfylking og menn bara notuðu sér sinn lýðræðislega rétt til þess að koma skoðun sinni á framfæri.“

Hvattirðu þitt fólk til þess að mæta á fundinn?

„Eins og ég segi ég á stuðningsmenn og þeir ákváðu að koma þarna og gerðu það og fyrir það er ég náttúrulega þakklátur,“ segir Þorsteinn Sæmundsson.

Þorsteinn verður 68 ára síðar á árinu. Fjóla Hrund er meira en helmingi yngri eða 33 ára.

Tveir framboðslistar kynntir á næstu dögum

Í lögum Miðflokksins er ekki að finna sérstök ákvæði um hvað gera skuli sé framboðslisti uppstillinganefndar felldur. 

Tveir framboðslistar af sex eru tilbúnir hjá Miðflokknum, í Norðvestur- og Norðausturkjördæmum. Á mánudaginn verður lagður fram listi uppstillinganefndar í Reykjavíkurkjördæmi norður á kjördæmafélagsfundi og á miðvikudaginn verður sami háttur hafður á í Suðurkjördæmi