Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nýr heilbrigðisráðherra Breta með COVID-19

epa07925466 Chancellor of the Exchequer Sajid Javid arrives for a cabinet meeting in Downing Street, Central London, Britain, 16 October 2019. The British government and European Union continue talks ahead of a EU summit scheduled for 17 and 18 October.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands, hefur greinst með COVID-19. Hann greinir frá þessu á Twitter. Hann segist vera með væg einkenni og þakkar það því að hann sé fullbólusettur. Hann hvetur alla til að drífa sig í bólusetningu.

Javid tók við heilbrigðisráðuneytinu af Matt Hancock sem sagði af sér þegar í ljós kom að hann hafði brotið sóttvarnareglur með framhjáhaldi. 

Kórónuveirufaraldurinn er í uppsveiflu á Bretlandi, keyrður áfram af delta-afbrigðinu. Engu að síður ætla stjórnvöld að standa við gefin loforð og aflétta öllum samkomutakmörkunum á mánudag.

Vísindamenn hafa gagnrýnt þau áform og sagt þau „ógn við umheiminn.“ Þeir telja að þetta geti leitt til þess að ný afbrigði myndist sem séu ónæm fyrir bóluefnum. Þar sem England sé miðstöð millilandaflugs muni þau eiga auðvelt með að dreifast um allan heiminn.

Breskum stjórnvöldum stendur augljóslega ekki alveg á sama um stöðuna í Evrópu. Þannig verður þeim ferðalöngum sem koma frá Frakklandi gert að fara í sóttkví þótt þeir séu fullbólusettir.

Ástæðan er sögð útbreiðsla á beta-afbrigði kórónuveirunnar sem fyrst greindist í Suður-Afríku.  Áhyggjur eru af því að bóluefni AstraZeneca, sem Bretar hafa notað mikið, veiti minni vörn gegn afbrigðinu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV