Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mykonos-eyja í tónlistarbanni vegna smita

17.07.2021 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Grísk stjórnvöld tilkynntu í dag að tímabundið tónlistarbann yrði sett á skemmtistaði, krár og veitingastaði grísku eyjunnar, Mykonos, sem lengi hefur verið þekkt fyrir líflegt skemmtanalíf. AFP fréttastofan greinir frá. Há tónlist á samkomustöðum valdi því að fólk þurfi að hækka róminn og þá séu meiri líkur á dropasmiti en ella. Grikkir hafa áður gripið til sömu aðgerða en þeim var að mestu aflétt í júní.

Þá tekur jafnframt næturútgöngubann á eyjunni gildi í dag, en það verður frá klukkan eitt að nóttu til sex að morgni. Mykonos-eyjan er einn fjölsóttasti ferðamannastaður Grikklands en aðgerðirnar eru einmitt hugsaðar til þess að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirunnar. Tilkynnt var í vikunni að smit á Mýkonos-eyju hefðu fjórfaldast á aðeins einni viku en um 300 virk smit eru nú á eyjunni. 

Smitum hefur fjölgað í Grikklandi undanfarna daga en það sé að mestu vegna útbreiðslu Delta-afbrigðisins. Um 2700 smit greindust í landinu í gær en þau voru aðeins 400 í vikunni á undan.