Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Margt á huldu varðandi morðið á Moise

epa09347433 FBI agents leave after conducting investigations at the residence where former Haitian president Jovenel Moise was assassinated, in Port-au-Prince, Haiti, 15 July 2021. There are currently eight FBI agents deployed to Haiti to assist with the investigation into Moise's murder, and the US Justice and Homeland Security departments are also involved in the investigations.  EPA-EFE/Orlando Barría
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Ríkislögreglustjóri Kólumbíu telur að fyrrverandi yfirmaður í leyniþjónustu Haítí hafi átt þátt í morðinu á forsetanum Jovenel Moise. Deutsche Welle greinir frá þessu. Moise var skotinn til bana á heimili sínu af hópi vopnaðra manna 7. júlí.

Jorge Vargas, ríkislögreglustjóri Kólumbíu, segist hafa trú á því að Joseph Felix Badio hafi gefið skipunina um að forsetinn skyldi myrtur. Margt er á huldu varðandi morðið á forsetanum, og ástandið í landinu, sem var eldfimt fyrir, hefur hríðversnað síðan. 

Það litla sem er vitað um morðið er að hópur manna réðist inn á heimili forsetans í skjóli nætur og skaut hann margsinnis. Eiginkona hans var særð lífshættulega. Hópurinn flýði af vettvangi en lögreglan hafði hendur í hári þeirra eftir skotbardaga. 26 Kólumbíumenn eru grunaðir um morðið, og náði lögreglan að handsama þá flesta. Að sögn Diego Molano, varnarmálaráðherra Kólumbíu, eru hinir grunuðu að öllum líkindum fyrrverandi hermenn í kólumbíska hernum. Þeir unnu fyrir sér í Haítí sem lífverðir. 

Þó vitað sé hverjir réðust inn á heimili forsetans er óljóst hver eða hverjir fengu árásarmennina til verksins. Yfirvöld í Haítí eru með lækni í haldi. Sá er með aðsetur í Flórída, og talinn eiga hlut að máli. Ríkislögreglustjóri Haítí hefur opinberað grun sinn um að fyrrverandi þingmaðurinn John Joel Joseph gegni lykilhlutverki í glæpnum. Þá hefur yfirmaður öryggissveitar forsetans, Dimitri Herard, einnig verið hnepptur í varðhald vegna málsins.