Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gagnrýndur harðlega fyrir að hlæja á flóðasvæðinu

17.07.2021 - 17:23
epa09346035 Armin Laschet (L), Minister President of German state of North Rhine-Westphalia, Federal Chairman and candidate for Chancellor speaks with firefighters as visiting flooded regions in Hagen, Germany, 15 July 2021. Large parts of Western Germany were hit by heavy, continuous rain in the night to 15 July resulting in local flash floods that destroyed buildings and swept away cars.  EPA-EFE/FRIEDEMANN VOGEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Armin Laschet, einn af þeim sem þykir hvað líklegastur til að taka við embætti kanslara Þýskalands í september, hefur sætt harðri gagnrýni eftir að myndskeið  birtust af honum hlæjandi á flóðasvæðunum í vesturhluta landsins. Að minnsta kosti 140 manns hafa farist í flóðunum í Þýskalandi.

Á myndunum sést Laschet gantast við hóp af fólki í bakgrunninum á meðan President Frank-Walter Steinmeier vottaði samúð sína frammi fyrir sjónvarpsvélum í bænum Erftstadt, sem varð einna verst úti í flóðunum.

Stjórnmálaskýrendur og stjórnmálamenn hafa verið fljótir að fordæma hegðun Lashcet á samfélagsmiðlum og í frétt Bild var mynd af honum birt undir fyrirsögninni „Laschet hlær á meðan þjóðin grætur“. 

Maximilian Reimers, þingmaður stjórnarandstöðuflokksins Die Linke, virðist draga í efa að Laschet geti orðið kanslari. „Þetta virðist allt vera einn stór brandari [fyrir Laschet]. Hvernig getur hann orðið kanslari?“ 

AFP fréttastofan segir að engin viðbrögð hafi borist frá Laschet sjálfum en ekki eru nema nokkrir dagar síðan hann komst síðast í klandur í fjölmiðlum. Þá var hann gagnrýndur fyrir að kalla kvenkyns fréttamann „unga dömu“ í viðtali um mannskæðu flóðin og loftslagsbreytingar. „Afsakaðu unga dama, þú getur ekki breytt stefnum eingöngu vegna eins dags eins og þessa,“ sagði Laschet í áðurnefndu viðtali en hann er forsætisráðherra Norður-Rínar Vestfalíu, sem er annað tveggja héraða sem hafa orðið hvað harðast úti í landinu.