Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

96 ára fyrrum ritari fyrir ungmennadómstól í september

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Dómstóll í Þýskalandi staðfesti í gær að réttarhöld yfir fyrrverandi ritara fangabúðanna í Stutthof hefjist 30. september. Hin ákærða er 96 ára gömul, en mætir þrátt fyrir það fyrir ungmennadómstól, þar sem hún var 18 ára þegar hún vann í fangabúðum nasista. 

Fangabúðirnar í Stutthof voru þær fyrstu sem nasistar opnuðu utan Þýskalands. Þær voru opnaðar í september árið 1939, skammt utan Gdansk í Póllandi. Meirihluti þeirra rúmlega 100 þúsund fanga sem voru sendir þangað voru pólskir. Að minnsta kosti 65 þúsund þeirra voru drepnir í búðunum, þar af voru gyðingar rúmlega þriðjungur. 

Konan er ákærð fyrir að hafa átt þátt í að drepa yfir 11 þúsund fanganna í starfi sínu sem ritari frá júní 1943 þar til í apríl 1945. Hún er sökuð um að hafa aðstoðað yfirmenn fangabúðanna við kerfisbundin morð á föngum, segir á vef Deutsche Welle.

Hún hefur áður borið vitni í málum tengdum helförinni. Hún greindi frá því fyrir dómi árið 1954 að allar upplýsingar frá yfirboðurum hafi farið í gegnum hana. Hún neitar því þó að hafa vitað nokkuð um morðin í fangabúðunum.

Frá árinu 2011 hefur dómsmálum gegn fyrrverandi starfsmönnum fangabúða nasista fjölgað verulega. Fram að því urðu saksóknarar að sýna óyggjandi fram á að hinir ákærðu hefðu sjálfir myrt fanga í búðunum til þess að dómarar tækju málið til greina. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV