Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfir áttatíu látnir í Þýskalandi og tuga enn saknað

16.07.2021 - 07:43
Erlent · Belgía · Hamfarir · Holland · Lúxemborg · Þýskaland · Evrópa · Veður
Frá þýska þorpinu Schuld, sem gjöreyðilagðist í flóðunum um miðjan júlí. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Yfir áttatíu hafa nú fundist látnir í Þýskalandi í kjölfar mikilla flóða og rigninga þar frá því í fyrrinótt. Tuga er enn saknað. Eyðileggingin er gríðarleg á flóðasvæðunum á vestanverðu meginlandinu. 

„Hundruð þúsunda þurftu að horfa upp á umhverfi sitt breytast í hamfarasvæði. Íbúðabyggingar breyttust í dauðagildrur, lækir í stórfljót og ég óttast að við sjáum ekki umfang hamfaranna fyrr en eftir nokkra daga,“ sagði Merkel á blaðamannafundi með Joe Biden Bandaríkjaforseta, en hún er í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum.

Um þúsund hermenn hafa verið kallaðir til aðstoðar við leit og björgun í Þýskalandi, sem virðist hafa farið verst út úr hamförunum.

Merkel vottaði aðstandendum fórnarlambanna og þeim sem enn leita ástvina, samúð sína. Hún talaði einnig til íbúa Belgíu, Hollands og Lúxemborgar sem einnig hafa farið illa út úr flóðunum.  

Í Belgíu hafa tólf fundist látnir og yfir tuttugu þúsund manns eru án rafmagns í Wallonia-héraðinu. Þúsundir íbúa hollensku borgarinnar Maastricht þurftu að yfirgefa heimili sín.