Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vill fá nemendalista heimavistarskólanna birta

16.07.2021 - 06:37
A t-shirt hangs from a tree at a memorial outside the former Kamloops Indian Residential School, in Kamloops, British Columbia, on Thursday, July 15, 2021. The Tk'emlúps te Secwépemc First Nation released a report outlining the findings of a search of the property using ground-penetrating radar which found the remains of 215 children buried near the former school. (Darryl Dyck/The Canadian Press via AP)
 Mynd: AP
Rosanne Casimir, höfðingi kanadísku frumbyggjaþjóðarinnar Tk'emlups te Secwepemc, kallar eftir því að skrár fyrir nemendur heimavistarskóla fyrir frumbyggja verði opnaðar. Aðeins þannig verði hægt að bera kennsl á börnin sem liggja í ómerktum gröfum á lóðum skólanna, hefur Guardian eftir henni.

Þjóðin birti í gær skýrslu um grafirnar 215 sem fundust fyrir nokkrum vikum og skóku kanadískt samfélag. Síðan hafa fleiri ómerktar fjöldagrafir fundist við aðra heimavistarskóla og óttast er að þær séu enn fleiri.

Að minnsta kosti 150 þúsund börn voru tekin af heimilum frumbyggjaþjóða frá seinni hluta 19. aldar og langt fram á þá 20. og send í heimavistarskóla fjarri fjölskyldum sínum. Þau voru svipt þjóðtungu sinni, siðum og venjum, og búinn þröngur kostur í skólunum. Rannsóknarnefnd sem gerði úttekt á skólunum fyrir nokkrum árum sagði í niðurstöðum sínum að kanadísk stjórnvöld hafi framið menningarlegt þjóðarmorð.

Casimir kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á lóðinni við Kamloops heimavistarskólann í Bresku Kólumbíu í gær. Þar kallaði hún eftir því að stjórnvöld birtu nemendalista, svo auðveldara verði að bera kennsl á þau sem liggja í ómerktu gröfunum. Hún kallaði jafnframt eftir því að kaþólska kirkjan birti þau gögn sem hún hefur um starfsemi skólanna. Hún sagði stofnunina ítrekað hafa hafnað ábyrgð eða neitað að biðjast formlega afsökunar á hennar hlutverki. Kaþólska kirkjan starfrækti stóran hluta heimavistarskólanna.

Grafirnar fundust með ratsjárbúnaði. Dr. Sarah Beaulieu, sérfræðingur í leit með slíkum búnaði, segir aðeins búið að skima lítinn hluta lóðarinnar við Kamloops skólann. Um 4.000 fermetrar hafa verið skimaðir með ratsjánni, en rúmir 640 þúsund fermetrar eru eftir.