„Það eru heldur betur að koma jól á laugardaginn“

Mynd: Aðsend / Árni Grétar Jóhannsson

„Það eru heldur betur að koma jól á laugardaginn“

16.07.2021 - 10:50

Höfundar

Það voru allir komnir með hundleið á sitjandi djammi, segir Árni Grétar Jóhannsson, eigandi skemmtistaðarins Kiki. Ekki var hægt að halda almennilegt jólaball í fyrra svo nú dregur Árni fram jólaskrautið, seríurnar og piparkökurnar og boðar til jóladragdrottningaskemmtunar.

Árni Grétar Jóhannsson, eigandi skemmtistaðarins Kiki og diskódíva eins og hann lýsir sér, er þekkt andlit úr skemmtanalífinu í Reykjavík. Þeir sem leggja leið sína niður í miðbæ um helgar hafa þó séð minna af honum undanfarna eina og  hálfa árið vegna ástæðna sem flestum er kunnugt um. Nú hefur Kiki opnað dyr sínar aftur fyrir diskó- og dansglaða og slær til jólaballs í dragdrottningafans.  

Heldur sumarjólagleði 

„Það eru heldur betur að koma jól núna á laugardaginn,“ segir Árni í samtali við Júlíu Margréti Einarsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Skemmtistaðurinn Kiki stendur fyrir dragdrottningasýningu af hæsta klassa undir yfirskriftinni Jól í júlí. „Við munum taka jólaguðspjallið og þetta helsta sem tengist jólunum og vera með skemmtilega sumarjólagleði.“ 

Sýningin verður haldin með pompi og prakt og nú sé kominn tími til að draga fram allt hið hátíðlegasta skraut, seríur og piparkökur. „Við erum alveg klár í jólaball og jólasjó.“ Árni segist meira að segja eiga nokkur jólatré á lager sem munu prýða salinn um helgina.  

„Við vorum svo ægilega svekkt því það var búið að vera lengi í undirbúningi hjá okkur að gera flott jólasjó sem ekki var svo hægt að halda, svo við kýlum á að gera það næsta laugardag kl. 21:30,“ segir Árni. Beint eftir sýninguna verður haldið meiriháttar jólaball þar sem plötusnúðar munu trylla lýðinn með jóla- og júróvisjónlögum í bland.  

Á sýningunni munu húsdrottningarnar fjórar; Miss Whoop Whoop, Gloria Hole, Gógó Starr og Agatha P skeiða um og dreifa jólagleði og jólasnjó.  

Tilbúið að tryllast af gleði 

Árni segir það svo sannarlega vera létti að geta loks pússað dansskóna og skemmt sér í góðra vina hópi. „Síðan við opnuðum dansgólfið er búin að vera stanslaus gleði,“ segir hann og bætir við að hann finni vel á fólki hve dansþyrst það hefur verið. Fólk getur loksins hætt að sitja einungis á gleðistundum með sínum nánustu í eitt og hálft ár að tala um sömu hlutina. „Það eru allir komnir með hundleið á því og allir tilbúnir að sleppa af sér beislinu og dansa og tryllast af gleði.“ 

Herlegheitin eru fyrir alla þá sem vilja hafa gaman og segir Árni að hinir leiðinlegu megi vera heima hjá sér. „Það er mikil keyrsla, mikil gleði og mikið stuð sem við viljum kalla fram,“ segir hann og því þurfi fólk að vera tilbúið að rifja upp jólagleðina. „Jólakúlurnar hérna síðast voru kannski ekki alveg til þess fallnar að maður gæti gleymt sér í gleðinni um jólin svo við erum að kýla á það núna.“  

Í sumar verður nóg um að vera hjá skemmtistaðnum Kiki því nú styttist óðfluga í Reykjavík Pride þar sem Árni verður með dagskrá alla vikuna, meðal annars í Hljómskálagarðinum. Þá verður einnig menningarnótt haldin hátíðleg. „Svo það er heilmikið framundan, ofan á alla dansgleðina sem er venjulega.“ 

Out of Control er mánaðarleg dragdrottingasýning hjá Kiki og verður að þessu sinni haldin með jólaþema. Það er því um að gera að fara að pússa jólaskóna, finna jólakjólinn - og barnið í sér og vera tilbúið í greni og gleði.  

Rætt var við Árna Grétar Jóhannsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hótelstjóri á daginn, dragdrottning á kvöldin

Menningarefni

Dragdrottningin og olíuveldið

Bókmenntir

Talin íkveikjuhætta af ölvuðu hinsegin fólki

Leiklist

„Þú þarft að eigna þér sviðið mitt“