Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Svíar fresta brottvísunum fólks til Afganistan

16.07.2021 - 15:52
epa09344994 Afghan security forces stand guard at a checkpoint near the Spin Boldak border with Pakistan, after Taliban captured the district, in Kandahar, Afghanistan, 14 July 2021. Taliban fighters have captured a vital border crossing with Pakistan at Spin Boldak, in the southern Kandahar province of Afghanistan, officials and insurgents said on 14 July, in the latest militant offensive of seizing territories since 01 May when American forces in Afghanistan began withdrawing.  EPA-EFE/M. SADIQ
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sænsk stjórnvöld hafa stöðvað brottvísanir úr landinu til Afganistan vegna þess að þar hefur ástandið farið versnandi samhliða auknum ítökum talibana. Úrskurðað hefur verið að um sjö þúsund manns eigi að vísa aftur til Afganistan og eru mál þeirra nú í biðstöðu.

Afgönsk stjórnvöld hvöttu Evrópuríki í byrjun mánaðarins til að stöðva brottvísanir í þrjá mánuði og tilkynntu finnsk stjórnvöld fyrr í vikunni að enginn yrði sendur þaðan. AFP fréttastofan hefur eftir stjórnanda sænsku útlendingastofnunarinnar að ákvörðunin um að vísa ekki fólki frá Svíþjóð til Afganistan verði í gildi um óákveðinn tíma.  

Sænska útlendingastofnunin haldi áfram að fylgjast með ástandi mála í Afganistan og meti síðar hvort ástæða væri til að endurskoða höfnun á óskum um hæli. Gert væri ráð fyrir að brottvísanir hæfust á ný þegar ástandið hefði lagast í Afganistan.  

Nokkur þúsund Afganir hafa leitað til Svíþjóðar í leit að hæli á undanförnum árum, sérstaklega ungir menn sem hafa verið einir á ferð. 

Átök hafa aukist í Afganistan eftir brotthvarf bandaríska og fjölþjóðaherliðsins. Talíbanar hafa tekið yfir stjórnina víðsvegar á landsbyggðinni og átt í átökum við afganska herinn. Þetta hefur orðið til þess að fjöldi fjölskyldna sé á flótta innan landsins. Þá flækir það málið að ný bylgja af kórónuveirusmitum hefur blossað upp í landinu, segir í frétt AFP.