Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Standa saman gegn Rússum og Kínverjum

16.07.2021 - 01:33
epa09347383 US President Joe Biden and German Chancellor Angela Merkel participate in a joint press conference in the East Room of the White House in Washington, DC, USA, 15 July 2021. The two leaders met earlier to discuss the Russian Nord Stream 2 pipeline, climate change, Covid-19 vaccines, and Russian cyber attacks.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í gærkvöld að ríkin standi saman gegn yfirgangi Rússa. Biden sagði blaðamönnum að hann hafi lýst áhyggjum sínum vegna Nord Stream 2 gasleiðslunnar sem liggur frá Rússlandi til Þýskalands. Þau Merkel voru þó sammála um að Rússar fái ekki að nota orku sem vopn í deilum við önnur ríki, að sögn BBC.

Merkel er í sinni síðustu opinberu heimsókn í Bandaríkjunum sem Þýskalandskanslari. Biden er fjórði Bandaríkjaforsetinn sem hún hittir í Hvíta húsinu frá því hún tók við embætti. Hún hættir að kjörtímabilinu loknu í haust.

Biden hélt áfram að ræða Nord Stream 2 leiðsluna og sagði Rússa ekki mega notfæra sér hana í tengslum við Úkraínu og önnur nágrannaríki sín. 

Biden sagði ríkin einnig standa saman í baráttunni gegn mannréttindabrotum í Kína. Þau standi með lýðræðislegum gildum og mannréttindum þegar þau sjái Kína eða önnur ríki ryena að grafa undan frjálsum og opnum samfélögum.

Biden ræddi einnig ástandið á Kúbu og mótmælin þar síðustu daga. Hann sagði Bandaríkjastjórn vera að athuga hvort hún geti komið netsambandi á í ríkinu. Hann sagði kommúnisma vera meingallað kerfi, og það hafi sýnt sig um allan heim. 

Þá talaði hann einnig um óeirðirnar í Haítí eftir að forseti landsins var ráðinn af dögum. Hann sagði Bandaríkjastjórn ekki með neinar áætlanir um að senda herlið þangað, í það minnsta í bili.