Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfir 20 látnir vegna hamfaraflóða á meginlandi Evrópu

15.07.2021 - 08:15
Erlent · Belgía · Evrópa · Hamfarir · Holland · Lúxemborg · Þýskaland
Mynd: EPA-EFE / EPA
Að minnsta kosti nítján eru látnir og tuga er saknað í miklum flóðum í Þýskalandi vestanverðu, þá eru að minnsta kosti tveir látnir vegna flóðanna í Belgíu. Miklar rigningar hafa haft það í för með sér að ár hafa flætt yfir bakka sína og hrifsað með sér bifreiðar, hús og fólk.

Þýski fjölmiðillinn SWR segir sex hús hafa hrunið í bænum Schuld, 35 kílómetra frá Bonn og nærri landamærum við Lúxemborg. Fjölmargir íbúar á flóðasvæðunum bíða í kjölfarið björgunar á þökum heimila sinna. Víða eru straumar það sterkir að ekki er unnt að koma fólki til bjargar á bátum og þarf því að bíða eftir aðstoð úr lofti.

Yfirvöld í Euskirchen í Norður Rín-Vestfalíu hafa nú tilkynnt um dauðsföll átta einstaklinga vegna flóða.

Veðurviðvörun var gefin út í þremur sambandsríkjum í vesturhluta landsins í gær en Norður Rín-Vestfalía er það ríki sem verst hefur farið út úr flóðunum. Í borginni Hagen hefur áin Volme flætt yfir bakka sína og neyðarástandi lýst yfir. Lestarferðum í ríkinu hefur að mestu leyti verið hætt.

Í Ahrweiler í Rínarlandi-Pfalz hefur lögregla tilkynnt að 70 sé saknað. Fimmtíu bíða þá björgunar á svæðinu þar sem áin Ahr hefur flætt yfir bakka sína.

Úrhellið undanfarna daga hefur einnig haft áhrif í nágrannaríkjum Þýskalands. Einn er látinn í belgísku borginni Eupen, annar lést í Liege en þar er óttast að áin Meuse flæði yfir bakka sína í dag. Í Hollandi hefur herlið verið kallað til aðstoðar og í Frakklandi hefur tugum íbúa nærri landamærum við Lúxemborg og Þýskaland verið gert að yfirgefa heimili sín.

Fréttin hefur verið uppfærð.