Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vara fólk við að auglýsa ferðalög á samfélagsmiðlum

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar fólk við að auglýsa að það sé að heiman og á ferðalagi en undanfarið hefur verið brotist inn á nokkur heimili eftir að húsráðendur settu myndir frá ferðalögum sínum á samfélagsmiðla. Töluvert hefur verið um bæði þjófnaði og innbrot á höfuðborgarsvæðinu upp á síðkastið.

Aðallega eru þjófar að stela reiðhjólum, rafmagnshlaupahjólum og vespum. Lögreglan hvetur fólk til að geyma slíka muni innandyra og alls ekki láta verðmæti blasa við í bifreiðum því nokkuð er um að brotist sé inn í bíla og í kjölfarið reynt að koma þýfinu í verð.  

Í færslu á Facebook-síðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er mikilvægi þess að ganga vel frá heimilum áður en haldið er í ferðalag ítrekað. Þá er fólk á faraldsfæti hvatt til að láta nágranna vita áður en haldið er í ferðalag. Nágrannavarsla getur skipt miklu máli og komið í veg fyrir innbrot.