Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tugir látnir í flóðum í Vestur-Evrópu

15.07.2021 - 12:46
Erlent · Belgía · Þýskaland · Evrópa · Veður
Frá þýska þorpinu Schuld, sem gjöreyðilagðist í flóðunum um miðjan júlí. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Að minnsta kosti 42 eru látnir í Þýskalandi og 6 í Belgíu af völdum úrhellisrigningar í vestanverðri Evrópu. Tuga er saknað. Flóð í ám hafa hrifið með sér hús og vegir eru lokaðir. Gert er ráð fyrir að áfram rigni að minnsta kosti fram á föstudagskvöld.

Í Þýskalandi er ástandið verst í sambandsríkjunum Rheinland-Pfalz og Nordrhein-Westfalen. Meðal þeirra sem hafa fundist látnir af völdum flóðanna eru tveir slökkviliðsmenn sem unnu að björgun fólks í nauðum.

Flóðin hafa valdið miklum skaða auk manntjóns. Hús í tugavís eru ónýt eftir að ár flutu yfir bakka sína. Fjöldi íbúa á flóðasvæðunum hefur verið fluttur á brott. Björgunarsveitir og slökkviliðsmenn hafa bjargað fólki af húsþökum, meðal annars í borginni Koblenz. Þar er sjötíu manns saknað, að því er fjölmiðlar hafa eftir talsmanni lögreglunnar.

Á þriðja hundrað hermenn taka þátt í björgunarstörfum í Nordrhein-Westfalen og yfir sjötíu í Rheinland-Pfalz. Þar eru fjórar herþyrlur notaðar til að sækja fólk sem er í nauðum vegna vatnsflaumsins. 

Þýskir veðurfræðingar spá því að áfram verði úrhellisrigning í dag og á morgun. Ekki er talið líklegt að úr vatnsveðrinu dragi fyrr en í fyrsta lagi annað kvöld. Haft er eftir forsætisráðherra Rheinland-Pfalz að óveðrið og afleiðingar þess eigi sér engin fordæmi í ríkinu.

Íbúar í Lúxemborg og Belgíu hafa einnig fengið að kenna á flóðunum. Verst er ástandið í Liege-héraði í Belgíu. Þar hafa fjórir fundist látnir og tugir íbúðarhúsa í bænum Pepinster í héraðinu austanverðu hafa hrunið. Á tólfta tímanum í dag biðu um sextíu manns eftir að verða bjargað af þökum húsa sinna. Gul viðvörun verður í nokkrum héruðum í Belgíu til miðnættis vegna veðursins.