Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Tugir falla í mótmælum gegn alvöldum konungi

15.07.2021 - 09:44
Mynd: WHO / Alþjóðaheilbrigðisstofnunin
Mannskæðar óeirðir hafa verið í Eswantini í sunnanverðri Afríku. Þar hófust mótmæli vegna dauða Thabani Nkomonye, sem var 25 ára lögfræðinemi og stjórnarandstæðingur sem almennt er talið að lögreglan hafi myrt. Eswantini, sem áður hét Swaziland, er konungdæmi þar sem Mswati þriðji konungur fer með alræðisvald. Lögreglan og öryggissveitir hafa tekið af hörku á mótmælendum sem krefjast lýðræðisumbóta.

Landlukt smáríki

Eswantini er landlukt á milli Suður-Afríku og Mozambique og hét Swaziland þangað til fyrir þremur árum. Það er aðeins rúmlega 17 þúsund ferkílómetrar að stærð og íbúarnir um 1,2 milljónir. Konungurinn er alvaldur, hann er einræðisherra, þarna fyrirfinnst ekkert lýðræði. Þar hófust mótmæli vegna dauða Thabani Nkomonye, sem var 25 ára lögfræðinemi og stjórnarandstæðingur sem almennt er talið að lögreglan hafi myrt. 
 

Hart tekið á mótmælum

Eftir dauða Nkomonyes mögnuðust mótmæli og snerust upp í átök. Lítið hefur frést af þessu, yfirvöld settu á útgöngubann og lokuðu internetinu. Þarna eru því fáir til frásagnar en svo virðist sem lögregla og öryggissveitir hafi tekið á mótmælum af mikilli hörku. Yfirvöld segja að 27 hafi látið lífið, aðrar heimildir segja að mannfallið sé umtalsvert meira. Yfirvöld segja að fólkið hafi fallið þegar öryggissveitir vörðu sig og eignir fólks gegn óspektarlýð og erlendum flugumönnum eða agentum. 
 

Heimsgluggi vikunnar

Fjallað var um ástandið í Eswantini í Heimsglugganum á Morgunvakt Rásar 1 en einnig um óeirðirnar í grannríkinu Suður-Afríku og um drauma Englendinga um að sigra í Evrópumótinu í fótbolta sem snerust upp í martröð rasisma og illdeilna eftir tap í úrslitaleiknum gegn Ítalíu.