
Heildarafli í júní 21% minni en í júní 2020
Verulegur samdráttur í uppsjávarafla
Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands. Botnfiskafli í júní var nær óbreyttur frá fyrra ári, tæp 35 þúsund tonn. Af botnfisktegundum veiddist mest af þorski eða tæp 20 þúsund tonn. Uppsjávarafli dróst verulega saman, um 54% í júní og var mestmegnis kolmunni eða 5.900 tonn, og svo makríll upp á rúm 4.100 tonn.
Landaður afli eykst milli ára
Á tólf mánaða tímabili, frá júlí 2020 til júní 2021, reyndist landaður afli alls vera tæplega 1,1 milljón tonn og er það 4% meira magn en var landað á sama tólf mánaða tímabili ári áður. Þar af var uppsjávarafli um 562 þúsund tonn, botnfiskafli 483 þúsund tonn og flatfiskafli tæp 25 þúsund tonn.
Aflinn í júnímánuði á þessu ári metinn á föstu verðlagi bendir til 4,4% minni verðmæta miðað við júní í fyrra, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar.