
Fimm ár frá misheppnuðu valdaráni Tyrklandshers
Recep Tayyip Erdogan komst til valda í Tyrklandi árið 2002 og varð forseti 2014. Áratugum saman hefur her landsins álitið skyldu sína að verja arfleifð Kemals Atatürks sem almennt er talinn faðir lýðræðisríkisins Tyrklands.
Undanfarna áratugi reyndi herinn þrisvar að ræna völdum í nafni lýðræðis og friðar. Að kvöldi 15. júlí 2016 flugu herflugvélar yfir höfuðborgina Ankara og sprengjum var varpað á höfuðstöðvar sérsveita og lögreglu.
Atatürk flugvöllur var hertekinn og hermenn tóku Taksim torg í Istanbúl herskildi. Erdogan var í sumarleyfi en las yfirlýsingu í sjónvarp og ákallaði almenning að hrinda valdaráninu.
Undir morgun 16. júlí hafði flugvöllurinn verið frelsaður undan uppreisnarmönnum og þeir tóku að gefast upp eftir hörð átök.
Minnst 260 féllu í átökunum og á þriðja þúsund særðist. Flestir hinna föllnu voru úr röðum valdaránsmanna, en tugir almennra borgara, lögreglumanna og stjórnarhermanna týndu einnig lífi.
Erdogan forseti herti mjög tökin í Tyrklandi eftir atburðina og hóf umfangsmiklar pólítískar hreinsanir. Þrengt var mjög að mál-, prent- og skoðanafrelsi í landinu. Forsetinn boðaði hugmyndir um að dauðarefsing yrði tekin upp í landinu.
Þúsundir hermanna og hershöfðingja voru handteknir og hlutu margir mjög þunga dóma. Á annað hundrað þúsunda opinberra starfsmanna voru reknir, þar á meðal dómarar og lögreglumenn.
Í apríl síðastliðnum voru tuttugu og tveir hermenn dæmdir í lífstíðarfangelsi. Einn þeirra var undirofursti sem braust inn í ríkisútvarpið og neyddi þul til að lesa tilkynningu hersins um valdaránið.
Fethullah Gülen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum hefur ætíð þvertekið fyrir nokkra aðild að uppreisninni og fullyrti að Erdogan hefði sviðsett valdaránið.