Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Búist við háum boðum í hatt Napóleons

15.07.2021 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd: Sotheby's
Búist er við að hið minnsta  600 þúsund evrur eða 88 milljónir króna verði boðnar í einn af höttum Napóleons Bonaparte þegar hann verður seldur á uppboði hjá Sotheby's í september. Hattinn hafði hann á höfðinu í herleiðangri gegn Prússum og Rússum árið 1807.

Hattur þessi er einn af nítján sem sagnfræðingar hafa staðfest að Napóleon hafi átt. Nokkrir þeirra hafa selst á uppboðum fyrir háar upphæðir. Þann sem boðinn verður upp í september eignaðist skoskur stjórnmálamaður, Michael Shaw Stewart, árið 1814. Hann hefur æ síðan verið í eigu afkomenda hans.

Að sögn sérfræðinga Sotheby's er talið að Napóleon hafi verið með hattinn á höfðinu þegar hann gerði friðarsamninga við Alexander fyrsta Rússakeisara í bænum Tilsit í júlí 1807.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV