Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Talíbanar í sókn á meðan Bandaríkjaher pakkar saman

Mynd: EPA-EFE / EPA
Undanfarnar vikur og mánuði hafa talíbanar sótt í sig veðrið í Afganistan, á sama tíma og herlið Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins undirbýr brottför frá landinu eftir nærri 20 ára hersetu.

Bandaríkjastjórn kveðst skilja vel við landið og stjórnvöld í Afganistan segist vel í stakk búin til að takast á við möguleg komandi átök við talíbana. Undanfarna daga og vikur hafa talíbanar hins vegar enn á ný sótt í sig veðrið og fjölmargir íbúar landsins óttast að ástandið fari fljótt aftur í sama horf og fyrir innrás Bandaríkjamanna árið 2001. Í sama streng taka ýmsir sérfræðingar sem til þekkja, eins og sjá má í sérstakri sjónvarpsútgáfu fréttaskýringaþáttarins Heimskviða um stöðuna og framtíðarhorfur í Afganistan.

Þáttinn má horfa á í spilaranum hér að ofan en þar er meðal annars rætt við dönsku fréttakonuna Nönnu Muus sem býr og starfar í Kabúl, og Brynju Huld Óskarsdóttur, öryggis- og varnarmálafræðing, en hún starfaði fyrir Atlantshafsbandalagið í Kabúl. 

Um framleiðslu þáttarins sá Jakob Halldórsson.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður