Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rútubílstjóra hampað sem hetju á Ítalíu

14.07.2021 - 05:49
Erlent · Ítalía · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: Vigili del Fuoco - Twitter.com
Ítalskur rútubílstjóri hefur verið ausinn lofi fyrir að koma 25 börnum til bjargar í gærmorgun. Að sögn fréttastofu BBC varð bílstjórinn var við að eitthvað væri í ólagi, og bað börnin um að forða sér úr rútunni og út úr göngum sem rútan var inni í. Skömmu síðar varð rútan alelda. Sjö barnanna voru flutt á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun.

Börnin voru á aldrinum 14 til 16 ára og voru á leið í sumarbúðir í norðanverðu landinu. Attilio Fontana, héraðsstjóri í Langbarðalandi, hrósaði rútubílstjóranum fyrir snögg viðbrögð, auk þess sem hann þakkaði slökkviliðsmönnum. Fjölmennt lið slökkviliðsmanna frá Lecco og Bellano voru sendar á vettvang. Ítalskir fjölmiðlar hafa eftir einum slökkviliðsmanna að mögulega gæti eldurinn hafa kviknað út frá sprungnu dekki.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV