Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Húsleitir og handtökur í Hvíta-Rússlandi

14.07.2021 - 15:56
epa08853012 Belarusian policemen run in front of police vehicles during a pensioner's rally against the government and Belarusian President Lukashenko in Minsk, Belarus, 30 November 2020. Protests have been ongoing since the presidential elections on 09 August, calling for the resignation of President Lukashenka and a fresh election to be held.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Öryggissveitir í Hvíta-Rússlandi réðust í dag inn í höfuðstöðvar mannréttindasamtaka og stjórnarandstöðuhópa. Nokkrir voru handteknir, sakaðir um að kynda undir óstöðugleika í landinu.

Samtök hvítrússneskra blaðamanna og tvenn samtök stjórnarandstæðinga greindu frá þessum nýjustu aðgerðum Alexanders Lukashenkos forseta til að berja á andstæðingunum. Að þeirra sögn réðust öryggissveitarmenn inn á skrifstofur að minnsta kosti fimm mannréttindasamtaka, þar á meðal Vyasna-hópsins og Helsinkinefndarinnar. Félagar Vyasna hafa fylgst vandlega með og greint frá fjöldahandtökum andstæðinga forsetans. Að minnsta kosti níu voru handteknir í aðgerðunum í dag og ekki er vitað hvar Ales Belyatsky, leiðtogi Vyasna, er niður kominn.

Oleg Gulak, formaður Helsinkinefndarinnar, skrifaði á Facebook að dyrnar að skrifstofu samtakanna hefðu verið brotnar upp. Einnig réðust öryggissveitarmenn inn á heimili blaðamanna, lögmanna og aðgerðasinna og handtóku nokkra.

Lukashenko hitti í gær Vladimír Pútín Rússlandsforseta, helsta samherja sinn á alþjóðavettvangi. Þar sakaði hann nokkur mannréttindasamtök um að kynda undir ógn og óstöðugleika í Hvíta-Rússlandi undir yfirskini baráttu fyrir lýðræði.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV