Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fimm ár frá hryðjuverkaárásinni í Nice

14.07.2021 - 22:30
Mynd: EPA-EFE / AFP POOL
Fimm ár eru í dag frá hryðjuverkaárásinni í Nice í Frakklandi þar sem maður ók á vörubíl á hóp fólks sem fagnaði þjóðhátíðardeginum. Um þrjú hundruð börn sækja enn aðstoð sérfræðinga til að vinna úr áfallinu

Á meðan þúsundir fögnuðu Bastilludeginum við ströndina í Nice á þessum degi fyrir fimm árum var hvítum flutningabíl ekið hægt eftir götunni svo lítið bar á. Svo var gefið í. Bílstjórinn ók inn í mannhafið á Promenade des Anglais götunni þar sem mikill fjöldi var samankominn til að halda upp á þjóðhátíðardag Frakka.

Áttatíu og sex létust í árásinni og á fimmta hundrað slösuðust. Yngsta fórnarlambið var tveggja og hálfs árs. 

Hinna látnu var minnst með ýmsum hætti í dag.  Ljósin áttatíu og sex, sem lýstu upp Promenade des Anglais nú í kvöld voru tendruð til minningar um þau sem létust. Ljósin voru kveikt á sömu mínútu og árásin var gerð fyrir fimm árum, klukkan 22.34 að staðartíma. 

Stjórnvöld hafa heitið bótum til hátt í tvö þúsund manns, fólks sem slasaðist, missti ættingja eða glímir enn við andleg eftirköst árásarinnar. Um þrjú hundruð börn sækja til að mynda enn aðstoð sérfræðinga til að vinna úr áfallinu. 

Nokkrir úr röðum aðstandenda hafa gagnrýnt hve hægt gengur að rannsaka hvort öryggisgæslu hafi verið ábótavant þetta kvöld. Viðbúnaðarstig í Frakklandi var þá afar hátt vegna tíðra hótana hryðjuverkasamtakanna íslamska ríkisins og þykir mörgum að fjölmenni á þjóðhátíðardegi hefði átt að kalla á enn meiri viðbúnað en var þetta kvöld. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV