
Bólusetningaráhugi vex í Frakklandi
Meðal þess sem forsetinn tilkynnti á mánudagskvöld var að heilbrigðisstarfsfólk yrði skikkað í bólusetningu. Þá fá þeir einir sem geta framvísað bólusetningarskírteini eða innan við tveggja sólarhringa neikvæðu COVID-prófi að nota almenningssamgöngur, fara á veitingastaði eða kaffihús, í bíó, líkamsrækt, leikhús og á aðra menningarviðburði svo nokkuð sé nefnt.
Fjöldi Frakka hefur til þessa verið andsnúinn því að láta bólusetja sig, en á mánudagskvöld snerist dæmið við hjá mörgum. Þúsundir fóru á netið og bókuðu tíma. Á nokkrum klukkustundum eftir ávarp Macrons forseta bókuðu til dæmis 926 þúsund sig í bólusetningu á Doctolib-vefnum og hundruð þúsunda til viðbótar daginn eftir, margir reyndar úr heilbrigðisstéttum.
Tilskipunin um bólusetningarvottorðið gildir frá næsta miðvikudegi, nema fyrir börn og ungmenni á aldrinum tólf til sautján ára. Þau fá frest til 30. ágúst. Bólusetning hefur staðið unglingum til boða síðustu vikur að því tilskildu að þeir hafi leyfi frá foreldrum og mæti með öðru hvoru þeirra þegar komið er í stunguna.