Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vildu burt en líklega ekki til Íslands

13.07.2021 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Fjórir laumufarþegar uppgötvuðust á dögunum um borð í skipi sem var á leið til Brasilíu frá Senegal að sækja súrál fyrir álverið í Straumsvík. Þeim var ekki hleypt frá borði í Brasilíu og úr varð að þeir sigldu með skipinu alla leið til Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru fjórmenningarnir karlmenn á þrítugsaldri og koma upprunalega frá Gíneu en þeir fóru um borð í súrálsskipið í Senegal. Upp komst um þá á fjórða degi eftir að skipið sigldi af stað og voru þeir vistaðir í káetu um borð í skipinu. Skipstjórinn tók þá ákvörðun að hleypa þeim ekki frá borði í Brasilíu en nokkuð víst þykir að mennirnir stefndu ekki á að fara til Íslands upphaflega.

Í samtali við fréttastofu segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, að mennirnir hafi allir verið fluttir í sóttvarnahús við komuna til landsins. Þeir eru allir skilríkjalausir, uppfylla þar með ekki skilyrði til að vera í landinu og verður vísað í burtu. 

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV