Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Banna leigu á rafskútum frá 11 á kvöldin

13.07.2021 - 12:23
epa07724877 Electric scooters lie on the pavement in Berlin, Germany, 18 July 2019. The shared electric scooters have been allowed to circulate in the capital since 15 June 2019. Multiple companies offer this service with a wide range of units parked around the city.  EPA-EFE/FELIPE TRUEBA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Borgarráð Óslóar samþykkti í dag bann við útleigu á rafskútum frá ellefu að kvöldi til fimm að morgni alla daga vikunnar. Bannið gengur í gildi fyrsta september. Leiguskútum verður sömuleiðis fækkað til muna.

Í fréttatilkynningu sem borgaryfirvöld sendu frá sér í dag segir að hvergi í evrópskum borgum og bæjum séu fleiri slík farartæki miðað við fólksfjölda en í Ósló, eða 25.734. Þeim fjölgaði um 25 prósent síðustu þrjá mánuði. Í apríl voru rafskúturnar 200 á hverja tíu þúsund borgarbúa. Í Stokkhólmi voru þær 125 og innan við 50 í Berlín, París og Róm, að því er kemur fram í frétt Verdens Gang. Rafskútuleigur verða samkvæmt ákvörðun borgarráðs að fækka farartækjunum niður í átta þúsund.

Í upphaflegri tillögu sem borgarráð tók til umræðu var gert ráð fyrir að bann við leigunni stæði frá eitt að nóttu til fimm. Henni var breytt eftir athugasemd frá háskólasjúkrahúsinu í Ósló. Þar kemur fram að flest rafskútuslys verði milli klukkan ellefu og miðnættis. 

Í nýrri skoðanakönnun meðal borgarbúa kemur í ljós að tæplega sjötíu prósent þeirra vilja banna rafskútur alfarið á götum og gangstéttum höfuðborgarinnar. Auk slysahættunnar fer það mest í taugarnar á fólki að sjá þær liggja eins og hráviði út um borg og bý og valda vegfarendum slysahættu.