Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Strætisvagnaþök verða hleðsluvöggur fyrir flygildi

12.07.2021 - 15:43
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Strætó og Svarmi, íslenskt fyrirtæki á sviði fjarkönnunar, gegna stóru hlutverki í Evrópuverkefni sem gengur út á að flygildi, eða drónar, noti strætisvagna sem nokkurs konar ferðahleðsluvöggur. Alls eru 30 aðilar frá átta Evrópulöndum, þar á meðal Finnlandi og Austurríki, þátttakendur í verkefninu sem er styrkt af nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins, Horizon 2020, en Tækniþróunarsjóður styrkir íslenska hluta verkefnisins.

Verkefnið, sem er hluti af Energy ESC verkefni Evrópusambandsins, gengur út á að Strætó og Svarmi munu vinna saman að því að útbúa kerfi þar sem strætisvagnarnir verða færanlegar hleðsluvöggur fyrir flygildin. Flygildin geta verið af ýmsum gerðum og sinnt t.d. eftirliti með landsvæðum eða umferðaröryggi.

Flygildin fá far og hlaða sig á meðan

Þessum færanlegu hleðsluvöggum er ætlað að leysa ákveðin vandamál sem tengjast flugi flygildanna, til dæmis að drægi þeirra er takmarkað en einnig eru ákveðin svæði sem flygildin mega ekki fljúga yfir og þá geta þau fengið far á þaki strætisvagnanna í gegnum slík svæði.

Þróunarvinnan við verkefnið byrjaði í síðasta mánuði. Í samtali við fréttastofu segir Daði Áslaugarson, yfirmaður upplýsingatæknideildar Strætó, að stefnt sé að því að verkefnið verði komið í gagnið eftir þrjú ár. „Tæknin mun bera það með sér að bæði lengja flugtíma drónans en líka komast undir þessi svæði sem ekki má fljúga með dróna á, hvort sem það er íbúðarbyggðartengt eða flugtengt,“ segir Daði en það eru um þrjú ár síðan hugmyndin var fyrst til umræðu.

Hleðsluvöggur knúnar sólarorku

Hleðsluvöggurnar verða knúnar með vistvænum orkugjöfum, annað hvort með sólarorku eða þá með orku frá rafknúnum strætisvögnum. Hleðslan verður þráðlaus sem gerir flygildin að miklu leyti sjálfbær en fyrst þarf að leysa ýmis tæknileg vandamál. „Það er til dæmis tæknilega krefjandi að lenda dróna á vagni sem er á ferð en einnig þarf að þróa sérstakar sólarrafhlöður í verkefnið,“ segir Daði. Þá þarf einnig að huga að því hvernig er best að stjórna drónunum, láta þá velja rétta vagna, lenda sjálfvirkt og svo framvegis.  

Ísland góður staður til að þróa verkefnið

Aðspurður hvort Ísland sé hentugur staður til að þróa verkefni á borð við þetta þá segir Daði að veðráttan á Íslandi sé einn helsti kosturinn við að prufukeyra verkefnið hér á landi. „Ef þetta virkar á Íslandi þá virkar þetta alls staðar,“ segir Daði og að það sé ein helsta ástæðan fyrir því að Ísland var valið sem prufusvæði en einnig er hugmyndin að hluta til íslensk. „Það er mikilvægt að þróa verkefni á borð við þetta í óblíðu umhverfi, við höfum mikið landrými til að prufa drónana auk þess sem smæð þjóðfélagsins er kostur og allar boðleiðir eru stuttar.“  

 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV