Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Englendingar aflétta takmörkunum 19. júlí

12.07.2021 - 15:28
epa05896756 (FILE) - A file photograph showing British Foreign Secretary Boris Johnson, arriving in 10 Downing Street for a cabinet meeting in central London, Britain, 29 March 2017. Foreign Secretary Boris Johnson has issued a statement on 08 April 2017
 Mynd: EPA
Stjórnvöld í Bretlandi staðfestu í dag að flestum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins verði aflétt í landinu næstkomandi mánudag, 19. júlí.

Boris Johnson forsætisráðherra greindi fyrst frá því í síðustu viku að til stæði að aflétta takmörkunum 19. júlí, en lét þó fylgja með að endanleg ákvörðun yrði ekki tekin fyrr en 12. júlí eftir frekari rannsóknir á gögnum.

Sá dagur er nú runninn upp, og nú síðdegis staðfesti Sajid Javid heilbrigðisráðherra að staðið yrði við þau fyrirheit. Hann áréttaði þó að faraldrinum væri langt í frá lokið.

„Við trúum því staðfastlega að nú sé rétti tíminn til að koma okkur nær eðlilegu lífi og munum því taka næstu skref í áætlun okkar 19. júlí,“ sagði Javid á þingfundi í dag.

Upphaflega hafði staðið til að aflétta öllum takmörkunum í Englandi á sumarsólstöðum, 21. júní. Þegar nær dró þeim degi drógu stjórnvöld hins vegar í land en þróun faraldursins hafði þá ekki verið í samræmi við væntingar þrátt fyrir góðan gang í bólusetningum.

Óvíða hefur gengið betur en að bólusetja en á Bretlandi. Alls eru 87% fullorðinna Breta komin með minnst einn skammt af bóluefni, en 66% fullorðinna eru fullbólusett.