Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Varað við skæðri hitabylgju í Bandaríkjunum

Smoke envelops trees as the Sugar Fire, part of the Beckwourth Complex Fire, burns in Doyle, Calif., Friday, July 9, 2021. (AP Photo/Noah Berger)
 Mynd: AP
Ríflega 31 milljón Bandaríkjamanna býr sig nú undir all svakalega hitabylgju sem spáð er að baka muni vestur- og suðvesturríki landsins um helgina. Yfirvöld vara við því að hitamet geti fallið víða í Kaliforníu og Nevada og segja jafnvel hitametið í Las Vegas í Nevada í hættu. Það hljóðar upp á 47,2 gráður á Celsíus. Þá gæti hitametið í Dauðadalnum - og þar með á Jörðinni - jafnvel fallið líka.

Varað er við því að „mikil ógn" stafi af hitanum á stórum svæðum, sem þýðir að öllum íbúum á þeim svæðum sé „mjög hætt við hitatengdum veikindum, bæði vegna þess hve langvarandi hitabylgjan er og þess, að hann mun lítið sem ekkert lækka yfir nóttina," eins og segir í viðvörun Bandarísku veðurstofunnar.

Hættan er eitthvað minni á hálendari svæðum en þó alstaðar töluverð, sér í lagi fyrir fólk sem er viðkvæmt fyrir hita og þau sem ekki hafa aðgang að nægilegri loftkælingu og vökva.

Í Kaliforníu verður hitinn mestur inn til landsins og er fólk varað við allt að 49 stiga hita á stöðum eins og Palm Springs. Þá er útlit fyrir að hitinn í Dauðadalnum geti náð allt að 56 stigum í dag og á morgun, og ekki útilokað að hitametið frá 1913, 56,7 gráður, verði slegið.  

Töluvert hefur verið um skógar- og gróðurelda í Kaliforníu síðustu daga og ljóst að aðstæður til að berjast við þá versna enn um helgina.