Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Setja lög um breyttar myndir á samfélagsmiðlum

10.07.2021 - 20:05
Mynd: NRK / NRK
Norskir áhrifavaldar þurfa brátt að láta fylgjendur sína vita ef þeir fegra myndir af sér á samfélagsmiðlum, samkvæmt nýjum lögum. Markmiðið er að stuðla að jákvæðari líkamsímynd ungs fólks.

Á síðustu árum hefur orðið sífellt auðveldara að nota svokallaða filtera, og ýmis smáforrit, til að eiga við útlit sitt á samfélagsmiðlum. Áhrifavaldar, sem eru með mikið fylgi og auglýsa vörur í krafti vinsælda sinna, hafa óhikað notað slíka tækni, en nú ætla norsk stjórnvöld að grípa inn í.

Með nýjum lögum sem taka brátt gildi þurfa áhrifavaldar að merkja sérstaklega þær myndir sem þeir hafa breytt. „Rannsóknir benda til að filterar geti lækkað sjálfsmat ungs fólks, að það verði óánægt með eigin líkama og útlit,“ segir Kamilla Knutsen Steinnes, rannsakandi við Háskólann í Ósló.

„Við vinnum að því að hanna lógó og skýrt merki sem verður auðsjáanlegt þeim sem sjá auglýsingarnar,“ segir Kjell Ingolf Ropstad, leiðtogi kristilegra demókrata.

Vonir standa til að breytingin stuðli að heilbrigðari líkamsímynd ungs fólks og bættri geðheilsu. „Mér fannst ég alltaf sætari með filter svo ég notaði þá og skildi ekki að ég varð háð þeim. Verst var að verða hrædd við að hitta fólk og hugsa: Þekkja þau mig, verða þau hissa og hugsa að ég líti öðruvísí út?“ segir Jennie Sofie Lie Pickl, norskur áhrifavaldur.