Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Biðja um hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum og SÞ

epa09332208 A police agent patrols during an operation to move two foreign men detained for allegedly participating in the assassination plot against Haitian President Jovenel Moise in Port-au-Prince, 08 July 2021. Moise was assassinated in his official residence on the morning of 07 July 2021. Four alleged assassins of Moise were killed by the police and two others were arrested on 08 July announced the Director General of the Police.  EPA-EFE/Jean Marc Herve Abelard
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfirvöld á Haítí hafa farið þess á leit við bandarísk stjórnvöld að þau sendi hersveitir til landsins til að tryggja helstu innviði landsins. Þá hafa Haítar einnig beðið Sameinuðu þjóðirnar að senda liðsafla í sömu erindagjörðum. Allsherjar upplausn ríkir í haítískum stjórnmálum eftir morðið á Jovenel Moïse forseta á miðvikudag.

Forsetinn er fallinn, tveir menn gera tilkall til forsætisráðherratignar og þar með stöðu æðsta handhafa framkvæmdavaldsins og þingið er óstarfhæft. Óttast er að upplausnin aukist enn og að til blóðugra átaka geti komið eftir morðið á forsetanum.

Sú stjórn sem enn á að heita við völd í Port-au-Prince, með Claude Joseph í forsæti, steig það fordæmalausa skref í gær að biða Bandaríkjastjórn að senda herlið til Haítí til að tryggja hafnir, flugvelli, eldsneytisbirgðir og fleiri lykilinnviði í ljósi vaxandi ólgu meðal íbúa. Bandaríkin hafa ítrekað hlutast til um málefni Haítí með óumbeðinni hernaðaríhlutun, en þetta er í fyrsta skipti sem stjórnvöld á Haítí biðja um slíka íhlutun.

Í New York Times er haft eftir ráðherra í haítísku ríkisstjórninni að þetta sé gert þar sem Joe Biden, Bandaríkjaforseti, og Antony Blinken, utanríkisráðherra, hafi báðir heitið því að veita Haítí alla nauðsynlega aðstoð.

Bandarískir hermenn ekki til Haítí í bráð

Stjórnvöld í Washington hafa ekki sent formlegt svar við þessu erindi en Reuters fréttastofan hefur eftir háttsettum en ónefndum bandarískum embættismanni að ekki standi til að senda herlið til Haítí „að svo stöddu.“ 

 Jen Psaki, talskona Hvíta hússins, greindi hins vegar frá því að háttsettir fulltrúar alríkislögreglunnar FBI og heimavarnarráðuneytisins yrðu sendir til Port-au-Prince „svo fljótt sem auðið er" til að kanna með hvaða hætti hægt sé að koma Haítum til hjálpar. 

Biður Sameinuðu þjóðirnar um hjálp

Þá sendi forsætisráðherrann Joseph erindi til Sameinuðu þjóðanna sama dag og Moïse var myrtur, þar sem hann bað um að samtökin sendu lið til Haítí hið fyrsta til að „styðja við aðgerðir lögreglunnar sem miðast að því að tryggja öryggi og almannafrið í landinu öllu.“

Forsenda slíkrar aðstoðar er að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna taki erindið fyrir og samþykki það. Ráðið hefur þegar fjallað um morðið á forsetanum en ekki beiðni forsætisráðherrans um hernaðaraðstoð. 

Fréttin hefur verið uppfærð.