Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Uppljóstrarar í plastbarkamálinu kæra sænska ríkið

Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Vísindamennirnir þrír sem tilkynntu ítalska skurðlækninn Paolo Macchiarinis til stjórnenda Karólínska sjúkrahússins, og lentu sjálfir í vandræðum vegna þess, hafa kært meðferð sænska ríkisins til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Macchiarini starfaði á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi og framkvæmdi þrjár barkaígræðslur á árunum 2011-2013, þær fyrstu í heiminum.

Vísindamennirnir, sem sjálfir tóku þátt í rannsókninni, tilkynntu Macchiarini til yfirvalda og sögðu hann hafa átt við niðurstöður rannsóknanna.

Tveir sjúklinganna eru nú látnir, þeirra á meðal Eretríumanninum Ande-Mariam Beyene, sem lést árið 2014. Hann var búsettur á Íslandi.

Í innri rannsókn Karólínska sjúkrahússins, sem gerð var í kjölfarið, var komist að þeirri niðurstöðu að sjö vísindamenn hefðu sýnt af sér vanrækslu í málinu. Þeirra á meðal voru Macchiarini, vísindamennirnir þrír og Tómas Guðbjartsson læknir á Landspítalanum.

Ekki fengið að verja sig

Vísindamennirnir, sem hafa leitað til Mannréttindadómstólsins, segja að ákvörðunin um áminningu hafi komið niður á starfsferli þeirra og þeir hafi ekki fengið tækifæri til að skjóta þeim til dómstóla í Svíþjóð.

„Rétturinn til að fá að áfrýja stjórnvaldsákvörðunum til dómstóla til að geta varið sig fyrir alvarlegum ásökunum, er grundvallarréttur í réttarríki. Það er mikilvægt bæði fyrir uppljóstrara innan læknisrannsókna og fyrir öryggi sjúklinga í Svíþjóð að Evrópudómstóllnn fjalli um þetta mál,“ segir Alexander Ottosson, lögmaður mannanna í fréttatilkynningu. 

Lygalæknirinn

Macchiarini var í september ákærður fyrir þrjú tilfelli af grófri vanrækslu og eiga réttarhöld að hefjast á næsta ári.

Hann á sér langa sögu vafasamrar framgöngu, hvort heldur í einkalífi eða vinnunni.  

Macchiarini var dæmdur í sextán mánaða fangelsi á Ítalíu árið 2019, en það mál tengdist plastbarkamálinu ekki með beinum hætti. Hann var fundinn sekur um að misnota aðstöðu sína með því að framkvæma aðgerð á vini sínum án þess að rukka hann fyrir, en vinurinn hafði ekki evrópskt sjúkratryggingakort og bar því að greiða fyrir læknisþjónustuna.

Þá var hann einnig sakfelldur fyrir að falsa biðlista og önnur gögn á meðan hann starfaði á sjúkrahúsinu í Flórens á árunum 2009 til 2012.

Árið 2018 kom út í Svíþjóð heimildarmyndin He lied about everything eða Hann laug öllu, þar sem bandaríska blaðakonuna Benita Alexander greinir frá því að samband þeirra hafi verið byggt á sandi. Macchiarini hafi lofað henni ævintýralegu brúðkaupi, þóst vera einkalæknir páfa og sagt að hann myndi gefa þau saman.