Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segjast ráða meginhluta Afganistans

09.07.2021 - 12:18
epa09325530 Afghan security officials inspect the scene of a bomb blast in Kandahar, Afghanistan, 06 July 2021. A car bomb exploded near a police center killing at least two police and injuring 24 others in Kandahar. The Taliban on 05 July said they planned to capture no Afghan provincial capital by military force even as its fighters continue making rapid territorial gains amid an ongoing withdrawal of foreign troops from the war-ravaged country. Violence in the country has spiked as representatives of the Afghan government and the Taliban try to resume the stalled intra-Afghan talks in Doha.  EPA-EFE/M SADIQ
Afganskir hermenn kanna verksummerki eftir sprengjuárás talibana í Kandahar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Talibanar fullyrða að þeir hafi lagt meginhluta Afganistans undir sig, þar á meðal hernaðarlega mikilvægan bæ við landamæri Írans. Allt bandarískt herlið verður farið frá Afganistan í ágústlok, að sögn Bandaríkjaforseta. Brottflutningi breska hersins er nánast lokið.

Sendinefnd talibana sem stödd er í Moskvu greindi frá því í dag að talibanar hefðu lagt undir sig um það bil 250 af 398 héruðum Afganistans. Það jafngilti 85 prósentum landsins.

Þá hafði AFP fréttastofan eftir talsmanni talibana að þeir hefðu náð yfirráðum í bænum Islam Qala á landamærum Afganistans og Írans, en hann þykir hernaðarlega mikilvægur. Stjórnvöld í Kabúl segja þetta ekki rétt, enn sé barist um bæinn. Þau andmæla einnig upplýsingum um landvinninga talibana að undanförnu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti fyrr á árinu að allt herlið Bandaríkjanna yrði farið frá Afganistan í síðasta lagi 11. september næstkomandi, réttum tuttugu árum eftir hryðjuverkaárásir vígmanna Al-Kaída á New York og Washington. Hann sagði í gær á fundi með öryggisráðgjöfum forsetaembættisins að brottflutningurinn gengi vel. Hernaðarafskiptum Bandaríkjanna lyki 31. ágúst.

Forsetinn sagði að tilgangi hersetunnar hefði verið náð. Ekki kæmi til greina að hann sendi enn eina kynslóð ungra Bandaríkjamanna til herþjónustu í Afganistan.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti þinginu í gær að nánast allt breskt herlið væri farið frá Afganistan. Þeir síðustu væru væntanlegir heim innan skamms.