Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Lýsti yfir áhyggum af stöðunni í austur-Úkraínu

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Utanríkisráðherra lýsti yfir áhyggjum af stöðu mannréttinda á átakasvæðum í austanverðri Úkraínu í yfirlýsingu NB8-ríkjanna í mannréttindaráði Sameinuðu Þjóðanna í dag.

Guðlaugur Þór Þórðarson flutti yfirlýsinguna á fundi ráðsins í svissnesku borginni Genf í dag. Í yfirlýsingunni var sérstaklega fjallað um frelsissviptingar án dóms og laga en þeir sem teknir eru höndum sæta slæmri og jafnvel niðurlægjandi meðferð.

„Skortur á virðingu fyrir réttarríkinu, mannúðarlögum og mannréttindum á þeim svæðum sem ríkisstjórnin ræður ekki yfir er óásættanleg,“ sagði Guðlaugur Þór í yfirlýsingunni. „Mannréttindabrot verður að stöðva og draga þá brotlegu til ábyrgðar.“

Þá kalla NB-8 ríkin, hópur ríkja sem samanstendur af Norðurlöndunum og ríkjum Eystrasaltsins, eftir því að Rússa axli ábyrgð samkvæmt alþjóðalögum og virði að fullu bæði samþykkt um landamæri Úkraínu og Minsk-samkomulagið.

Minsk samkomulagið var undirritað árið 2014 af fulltrúum deiluaðila og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Markmið samkomulagsins er að binda endi á átök í austurhluta Úkraínu.
 

Andri Magnús Eysteinsson