Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Telenor selur dótturfyrirtækið í Mjanmar

08.07.2021 - 16:04
epa06618410 (FILE) - A telenor logo at their store at the central station in downtown Gothenburg, Sweden, 14 March 2013 (reissued 21 March 2018). Norwegian telecommunications group Telenor on 21 March 2018 announced irt was selling its central and eastern European (CEE) subsidiaries to investment company PPF Group at a price of 2.8 billion euros.  EPA-EFE/MAURITZ ANTIN
 Mynd: EPA - EPA-EFE
Norska símafyrirtækið Telenor ætlar að selja dótturfyrirtæki sitt í Mjanmar. Rekstur þess hefur verið ýmsum erfiðleikum háður eftir að herforingjastjórn landsins hrifsaði til sín öll völd fyrr á árinu.

Sigve Brekke, forstjóri Telenor, greindi frá þessu í yfirlýsingu í dag. Þar segir að staða mála í Mjanmar undanfarna mánuði hafi stefnt lífi og heilsu starfsfólksins í hættu, eftirlit með starfseminni hafi verið hert og reglugerðum breytt. Því hafi verið ákveðið að selja dótturfyrirtækið líbanska fjárfestingafélaginu M1 Group fyrir 105 milljónir dollara, þrettán milljarða íslenskra króna.

Telenor var eitt fárra vestrænna fyrirtækja sem lagði í fjárfestingar í Mjanmar eftir að herstjórn landsins slakaði á klónni fyrir áratug eða svo. Starfsemi dótturfyrirtækisins í fyrra nam sjö prósentum af heildartekjum Telenor.

Sérfræðingar á fjarskiptasviði gera ráð fyrir að eigendaskiptin eigi eftir að valda andstæðingum valdaránsins auknum erfiðleikum við að koma boðskap sínum á framfæri. Þá auðveldi þau herstjórninni að ritskoða efni sem andstæðingar hennar birta á samfélagsmiðlum.

Stjórn Telenor tilkynnti fyrir nokkru að verðmæti dótturfyrirtækisins hefði verið afskrifað úr 769 milljónum dollara í núll. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV