Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Kórónuveirusmit hafa tvöfaldast í Finnlandi

08.07.2021 - 16:44
Mynd með færslu
 Mynd: A. Timonen - YLE
Fjöldi kórónuveirusmita í Finnlandi hefur tvöfaldast á undanförnum tveimur vikum en um 2240 smit greindust þar í landi á tímabilinu. Til samanburðar voru smitin rétt yfir þúsund fyrir tveimur vikum síðan. Finnska ríkisútvarpið, YLE, segir að fjölgunina megi að mestu rekja til fótboltaáhugafólks sem sneri heim frá leik Finna og Rússa í Pétursborg í seinnihluta júní.

Delta-afbrigðið, sem talið er meira smitandi en flest önnur, breiðist hratt út í Rússlandi um þessar mundir og er það afbrigðið sem fótboltaáhorfendurnir hafa verið að greinast með. Um 800 manns var leyft að snúa heim frá Rússlandi í lok júní án þess að gangast undir PCR-skimun á landamærunum. 

Finnskur læknir, Hanna Nohynek, telur þróunina ekki koma sér á óvart en finnsk heilbrigðisyfirvöld hafi búist við aukningu smita, einmitt í kjölfar Evrópumeistaramótsins í fótbolta sem nú stendur yfir. Þá segir hún jafnframt að staðan sé góð ef miðað er við margar aðrar Evrópuþjóðir, ekki sé mikið um sjúkrahúsinnlagnir eða alvarleg tilvik í Finnlandi. Þetta segir Nohynek í samtali við YLE. 

Þrátt fyrir nokkurt bakslag reikna Finnar með að hafa náð að bólusetja alla landsmenn, 16 ára og eldri, í október og fara því bjartsýnir inn í haustið.