Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

KA-menn langþreyttir á lélegri aðstöðu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson

KA-menn langþreyttir á lélegri aðstöðu

08.07.2021 - 09:46
Formaður Knattspyrnufélags Akureyrar segir félagsmenn orðna langþreytta á aðstöðuleysi til knattspyrnuiðkunnar fyrir KA-menn, sem þurfa að spila heimaleiki sína í meistaraflokki í öðru sveitarfélagi.

Orðsending ætluð KA-mönnum

Hjörvar Maronsson, formaður knattspyrnudeildar KA, sendi félagsmönnum í Knattspyrnufélagi Akureyrar orðsendingu sem birtist í Vikublaðinu. Henni var ætlað að gera félagsmönnum betri grein fyrir stöðunni á knattspyrnuvöllum félagsins. 

Það hefur vakið athygli að heimaleikir KA í úrvalsdeildinni í knattspyrnu hafa farið fram á Dalvík en ekki á Akureyri. Ástæðan er lélegt ástand fótboltavalla í bænum. Heimavöllur KA, svokallaður Greifavöllur, hefur um margra ára skeið verið lélegur segir Hjörvar Maronsson, formaður knattspyrnudeildar KA. „Hann er og verður ekki úr þessu fótboltavöllur af neinu viti. Það liggur alveg fyrir að við getum ekki beðið mikið lengur með það að fá nýjan völl í ljósi þess að við erum að spila í úrvalsdeild karla. Svo náttúrulega er grasið á vellinum eins og allir vita algjörlega úr sér gengið,“ segir Hjörvar.

Snýst um peninga

Hjörvar segir að bæjaryfirvöld sýni málinu skilning og skrifað hefur verið undir viljayfirlýsingu um að setja fjármuni í uppbyggingu á KA-svæðinu árin 2023 og -4. Þangað til er ljóst að KA-menn munu þurfa að spila einhverja af sínum heimaleikjum á völlum utan Akureyrar.

Byrjað var að grafa fyrir nýjum fótboltavelli á KA-svæðinu árið 2008 en við bankahrunið stöðvuðust framkvæmdir. Nú árið 2021 hafa þær enn ekki hafist á ný. Hjörvar bendir þó á að félagsmenn KA geri sér fyllilega grein fyrir að yfirvöld í bænum þurfi að fara varlega í að eyða fjármunum bæjarins en málið sé aðkallandi. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Yfir 2000 keppendur spiluðu á völlunum á Akureyri í síðustu viku

 

Vallarsvæði í mikilli notkun

Í síðustu viku var eitt stærsta fótboltamót landsins haldið á Akureyri. Hjörvar segir því að það sé mikilvægt að geta boðið gestum upp á góða aðstöðu. Það sé bænum öllum í hag að fá þennan fjölda til bæjarins og sé því nauðsynlegt að aðstaðan sé góð.

Hjörvar bendir á að fótbolti sé fjölmennasta íþróttagrein landsins og það verði að hlúa að félagsstarfinu öllu. „Uppbyggingin sem við erum að tala um snýst fyrst og fremst um félagið í heild, knattspyrnuna í heild sinni. Meistaraflokkurinn okkar er bara lítið brot af því. Þetta snýst um að við höfum gott svæði fyrir yfir 700 krakka sem eru að stunda fótbolta hjá félaginu og um það snýst okkar barátta, um það fá svæðið okkar í betra stand,“ segir Hjörvar.

 

Tengdar fréttir

Norðurland

„Höfum dregist aftur úr miðað við önnur sveitarfélög“

Norðurland

Verja 6,7 milljörðum í íþróttamannvirki á Akureyri