Yfir milljón skammtar af bóluefni sem ekki á að nota

07.07.2021 - 06:59
epa09074881 (FILE) - A vial of AstraZeneca's Covid-19 vaccine stored in Movianto in Oss, The Netherlands, 12 February 2021 (reissued 14 March 2021). The Dutch health ministry on 14 March 2021 said it was suspending the AstraZeneca vaccine rollout, just days after pressing ahead with its use.  EPA-EFE/Remko de Waal
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Sóttvarnastofnun Danmerkur er með rúmlega milljón skammta af COVID-bóluefni frá Janssen og AstraZeneca á lager, þrátt fyrir að dönsk stjórnvöld hafi ákveðið að þau efni skuli ekki notuð til bólusetninga þar í landi. Frá þessu er greint á vef Danmarks Radio, DR, sem hefur upplýsingarnar frá heilbrigðisráðuneytinu.

Rúm vika er síðan heilbrigðisyfirvöld ákváðu að bóluefnum frá þessum framleiðendum yrði áfram haldið utan við dönsku bólusetningaráætlunina. Þrátt fyrir það, segir í frétt DR, berast enn stórar sendingar af efnunum til Danmerkur.

Og þótt Danir hafi þegar ákveðið að senda hundruð þúsunda skammta til nokkurra af fátækustu ríkjum heims, og þrátt fyrir að um 45.000 Danir hafi ákveðið að nýta sér Janssen-bóluefnið þegar boðið hefur verið upp á það, þá halda kæliskápar dönsku sóttvarnastofnunarinnar áfram að tútna út af bóluefnum sem ekki stendur til að nota.

Óskiljanlegt að ekki sé búið að stöðva þetta

Peter Hvelplund, talsmaður Einingarlistans í öllu er lýtur að kórónaveirufaraldrinum, segir óskiljanlegt að ekki skuli vera búið að stöðva frekari sendingar á þessum efnum til Danmerkur. „Ég mun ræða þetta við [heilbrigðis]ráðherrann án tafar, til að tryggja að við tökum ekki á móti fleiri skömmtum hingað," segir Hvelplund í samtali við DR.

Ástæða þess að bóluefnin streyma áfram til Danmerkur eins og ekkert hafi ískorist er sú, að Danir eru bundnir af samningum sem þeir gerðu við framleiðendur þeirra á sínum tíma.

Kaupin ekki vandinn, heldur millilendingin í Kaupmannahöfn

Kaupin á efnunum eru þó ekki hinn eiginlegi vandi, segir Flemming Konradsen, prófessor í heilbrigðisfræðum við Kaupmannahafnarháskóla, heldur að þau skuli vera send til Danmerkur.

„Þegar efnin hafa verið send í frysti til Kaupmannahafnar, þá geta þau ekki farið rakleiðis í alþjóðlega COVAX-bóluefnasamstarfið,“ útskýrir Konradsen. „Þar vill fólk bara fá efnin beint frá framleiðanda.“

Þess vegna verða dönsk yfirvöld að tryggja þegar í stað, að framleiðendur hætti að senda umsamin bóluefni til Kaupmannahafnar og sendi þau í staðinn beint til COVAX, sem komi þeim þangað sem þörfin er brýnust.