Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Víðir fékk Janssen: „Þetta er frábært“

Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV - Bragi Valgeirsson
Stöðugur straumur fólks var í Laugardalshöll í morgun í bólusetningu með Janssen. Þetta var svokallað opið hús, þar sem hægt var að fá sprautu án þess að skrá sig eða hafa fengið boðun. Mikið var um fólk sem hafði misst af fyrri boðunum og útlendinga án íslenskrar kennitölu.

Starfsfólk Heilsugæslunnar var á þönum inn og út úr húsinu með sprautubakka til að bólusetja fólk í sóttkví, sem beið í bílum fyrir utan höllina. Svo mikil var aðsóknin að bóluefnið kláraðist um tíma.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, var einn af þeim sem fékk sprautu. Hann fékk Covid í lok síðasta árs og segist enn vera að glíma við eftirköstin. 

„Ég er ekki með lyktarskyn og bragðskyn ennþá, en að öðru leyti orðinn góður,“ sagði Víðir við Sunnu Valgerðardóttur fréttamann á leið inn í Höllina í morgun.

Hann sagðist svo ekki hafa fundið neitt fyrir sprautunni sjálfri. „Þetta er frábært.“