Gömul mannvirki grafin upp á Seyðisfirði

Mynd: RÚV / RÚV

Gömul mannvirki grafin upp á Seyðisfirði

07.07.2021 - 09:15

Höfundar

„Við þurfum að vera rösk,“ segir Rannveig Þórhallsdóttir fornleifafræðingur en nú á að reisa heilmikið mannvirki sem mun verja Seyðisfjarðarbyggð. Eftir að snjóflóðagarðarnir hafa verið reistir verður ekki lengur hægt að grafa svæðið upp fyrir fornleifum og því þarf að hafa hraðann á.

Bjólfur er eitt af hinum tignarlegu fjöllum Seyðisfjarðar og stendur til að reisa snjóflóðavarnargarða í fjallinu. Á meðan beðið er eftir að Minjastofnun segi að sé óhætt að hefja vinnu á svæðinu er Rannveig Þórhallsdóttir, fornleifafræðingur og uppgraftarstjóri, ásamt hópi fólks að grafa upp sögu staðarins. 

Á svæðinu er að finna ýmis mannvirki, til að mynda mögulegan kjallara húss sem líklega hefur farið í snjóflóðinu árið 1885. Þá hafa efri hæðir hússins verið trévirki sem er horfið. Hópurinn er að grafa upp minjar frá þessum tíma og fyrr en vitað er um byggð sem er líklega frá 10. öld á svæðinu.  

„Við sjáum allt í samhengi þegar við förum að horfa á þetta í uppmælingum en það tekur tíma að grafa niður og sjá þetta,“ segir Rannveig og að best sé að vera ekki með neinar yfirlýsingar á þessu stigi máls um hvað sé þarna að finna. En um er að ræða minjar á borð við járnnagla, postulín, gler og kol sem fundist hafa í rústunum.   

Einnig hefur fundist vatnsmylla sem að öllum líkindum er frá upphafi 19. aldar og segir Indriði Skarphéðinsson, fornleifafræðingur, hana vera þá fyrstu sem grafin er upp á Íslandi.  

Lækur sem runnið hefur úr fjallinu hafi verið veiddur í gegnum tóft, látinn snúa blöðum og síðan runnið aftur út í lækinn. „Þetta er svolítið hugvit, þessi mylla,“ segir Indriði, þegar menn höfðu ekki öll þau tæki og tól sem við höfum í dag til að byggja slík virki.  

Lengi hefur verið vitað að gömul byggð væri á svæðinu en Guðmundur Olsen gróf könnunarskurði árið 1998 og er talið að byggðin sé frá 10. öld. Næsta sumar verði farið í að kanna hvers konar mannvirki þetta hafi verið. „Þá munum við sjá hvernig húsin voru, vonandi,“ segir Rannveig.   

Sumarlandinn verður á flakki í sumar og hittir landann fyrir í sínu náttúrulega umhverfi, uppi á fjöllum, úti í garði, inni í skógi og allt um kring. Sumarlandinn leitar uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur. Sumarlandinn tekur líka lagið ef vel liggur á honum. 

Tengdar fréttir

Mannlíf

Framtíðin er í skógrækt

Mannlíf

Notar lúpínu til að lita silki

Mannlíf

„Við eigum svo glæsilegar sundlaugar“

Menningarefni

Gömlu salthúsi breytt í fallegt listrými