Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Vilja 70 milljónir dollara í lausnargjald

Mynd: EPA-EFE / TT
Tölvuþrjótar sem lömuðu starfsemi hundraða fyrirtækja um allan heim um síðustu helgi, krefjast þess að fá 70 milljónir dollara, rúmlega 8,7 milljarða króna gegn því að starfsemin geti hafist á ný. Verslanakeðjan Coop [Kó-opp], sem  rekur um átta hundruð verslanir víðs vegar um Svíþjóð er meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á þrjótunum. 

Verslanir Coop lokuðust allar á laugardag vegna árásarinnar, þar sem kassakerfi þeirra varð óvirkt. Þær eru flestar enn lokaðar. Fleiri fyrirtæki í Svíþjóð urðu fyrir barðinu á glæpamönnunum, þar á meðal lyfjabúðakeðja, eldsneytisfyrirtæki, sænsku járnbrautirnar og ríkissjónvarp landsins, SVT. Jafnvel er talið að yfir þúsund fyrirtæki víðs vegar um heiminn hafi lent í vandræðum.

Árásin var gerð á hugbúnað bandaríska fyrirtækisins Kaseya. Hann er notaður til að hafa eftirlit með netkerfum og fylgjast með uppfærslum. Talið er að rússneskur hakkarahópur sem kallar sig REvil hafi staðið að árásinni. Að sögn Alríkislögreglu Bandaríkjanna FBI var sami hópur að verki þegar árás var gerð á brasilíska fyrirtækið JBS í síðasta mánuði. Það er stærsta kjötbirgðafyrirtæki í heimi með starfstöðvar víða um heim - í Norður- og Suður-Ameríku, Evrópu og Eyjaálfu. Forsvarsmenn þess greiddu 11 milljónir dollara, 1,4 milljarða króna, til að starfsemin gæti hafist að nýju.