Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kardínáli og níumenningar ákærðir fyrir fjársvik

03.07.2021 - 18:44
epa05232533 A handout photo provided by Vatican newspaper Osservatore Romano shows Pope Francis delivering the Urbi et Orbi message to conclude Easter Mass at Saint Peter's Square, Vatican City, 27 March 2016. Easter is a Christian celebration
 Mynd: EPA - OSSERVATORE ROMANO VIA ANSA
Dómari í Vatíkaninu hefur fyrirskipað að tíu manns, þar á meðal ítalskur kardínáli, skuli þura að svara til saka fyrir meinta fjármálaglæpi.

Kardínálinn, Giovanni Angelo Becciu, verður þar með háttsettasti klerkur innan Vatíkansins sem þarf að svara til saka fyrir fjárdrátt og misnotkun á valdi. Becciu var neyddur til afsagnar í september, en heldur þó titli sínum. 

Becciu var náinn samstarfsmaður Frans páfa og hafði áður verið í lykilstöðu á skrifstofu Vatíkansins sem tekur við fjárveitingum.

Ákærurnar koma í kjölfar tveggja ára rannsóknar saksóknara í Vatíkaninu, en ríkismiðillinn Vatican News segir saksóknara hafa „gríðarlega mikið af gögnum“ máli sínu til stuðnings.

Ásakanirnar snúa að flóknu neti fjármálagerninga þar sem fjármunir kirkjunnar voru notaðir í fasteignaviðskiptum, sem kirkjan sjálf tapaði háum fjárhæðum á en milliliðir nutu góðs af.

Meðal fjárfestinganna voru íbúðir í Lundúnum sem keyptar voru fyrir um 25 milljarða króna og komu fjármunirnir í gegnum aflandsfélög tengd kirkjunni.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV